Við Feanor ákváðum að efna til greinasamkeppnar, eftir að hafa séð könnun hjá JDM þar sem fólk tók almennt vel í hugmyndina.

Keppnin fer þannig fram að á tímabilinu 14. júlí til 27. júlí (sem gera tvær vikur allt í allt) sendir fólk inn greinar sem á þessu tímabili teljast keppnisbærar.
Við hvetjum notendur eindregið til að tjá sig um flestar greinarnar, helst ekki með svörum eins og “góð grein marr”, heldur koma með aðeins nákvæmari gagnrýni. Vel væri til fundið að hafa frumstætt einkunnakerfi á hverja grein, þar sem notendur gera einkunn frá 1-10 fyrir:

Efnistök (hversu áhugavert efni greinarhöfundur valdi, hvort efnið sé of afmarkað eða of vítt og hvernig honum tekst að fjalla um hlutina)

Uppbyggingu (greinarskil, orðaröð í setningum o.s.frv.)

Stafsetningu (þá bæði innsláttar, mál og stafsetningarvillur)

Pælingar (hversu mikið greinarhöfundur skrifar út frá eigin hjarta og hvernig honum tekst til við það - ef greinin fjallar aðeins um atburði sem gerðust á Miðgarði eða eitthvað slíkt skal gefa 0 fyrir þennan lið - við hvetjum þó greinarhöfunda til að koma með sem mest af hugrenningum um efnið sem þeir skrifa um)

Skemmtanagildi (hversu vel greinin hélt manni við efnið, hvort hún sé eftirminnileg o.s.frv.)

Sé þessu kerfi komið á laggirnar munum við Feanor fylgjast vel með meðaleinkunnum hverrar greinar fyrir sig; við tökum hins vegar mun minna mark á svörum sem innihalda ekki þessar einkunnir nema að gagnrýnin á hana sé þeim mun betri.
Allra heimilda á sjálfsögðu að geta, og ef menn verða uppvísir að því að leika listir sínar með ctrl-c og ctrl-v takkana teljast þeir úr keppninni og hafa fyrirgert rétti sínum til frekari þátttöku í keppninni.
Öllu skítkasti verður og eytt.

Síðan veljum við Feanor tíu greinar í “úrslitakeppnina” þar sem venjuleg könnun á áhugamálinu ræður því hver stendur uppi sem sigurvegari. Í fyrstu verðlaun verður nýi diskurinn með Love Guru - Smokin' hot sem er ómissandi í öll nördapartýin.