Lord of the Rings: Return of the King gagnrýni Í gær var ég svo heppinn að komast á forsýningu á lokamynd trílógíu Peter Jackson: Lord of the Rings: The Return of the King. Ég var á fullu í próflestri og átti meira að segja að mæta í háskólapróf í eðlisfræði daginn eftir, þegar ég fékk skyndilega boð um 4-leytið að fá að sjá myndina um kvöldið. Próflestrinum var að sjálfsögðu stungið til hliðar og geymdur þar til eftir sýninguna (hafði í för með sér lestur til 05.00 um morgun og mætingu svo í próf kl. 09.00).
Hér er var um að ræða mynd sem ég hef beðið eftir í mörg ár eftir að fá að sjá á hvíta tjaldinu, í raun meira en hinar tvær myndirnar, þar sem að þriðja bók Hringadróttinssögu hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Ekkert hefði getað komið í veg fyrir að ég færi á myndina.

Umrædd sýning var sérstök forsýning fyrir fjölmiðla. Þar sem að almenn frumsýning úti í heimi er ekki fyrr en þann 17. des. var þónokkur öryggisgæsla eins og í fyrra til að koma í veg fyrir vitleysinga sem taka með sér vídeóvél í bíó og setja svo upptökuna á netið.

Hvað er svo að segja um myndina sjálfa ? Jú….

The Lord of the Rings: The Return of the King er meistaraverk eitt og sér. Myndin fullkomnar trílógíuna og ég held að það sé ekki nokkur spurning að þessi sé sú besta af myndunum þremur. Ég las einhverja gagnrýni þar sem höfundur nefndi að myndin innihéldi í rauninni það besta úr fyrri myndunum tveimur en kæmi einnig með svo margt nýtt stórfenglegt að myndin bæri algerlega höfuð og herðar yfir hinum. Ég get verið mjög sammála því. Ég naut þess virkilega til hins ítrasta þegar ég sá Fellowship of the Ring og The Two Towers á sínum tíma en Return of the King er bara miklu sterkari mynd. Hún er vissulega lokakaflinn, myndin hefur alvöru endi en endar ekki hálfpartinn út í loftið eins og fyrri myndirnar í raun gerðu.

Upphafsatriðið er mjög sérstakt og áhrifamikið. Ég sé enga ástæðu til þess að segja frá því, þó margir gagnrýnendur hafi nú þegar gert það í sínum greinum; ég hefði sjálfur kosið að vita ekki af byrjuninni þegar ég fór á myndina.

Við tökum upp þráðinn þar sem við skildum við Frodo og Sam. Þeir nálgast Mordor nú óðfluga með Gollum sem leiðbeinanda. Mikil spenna er nú komin í hópinn, Sam er fullviss um það að Gollum ætli að reyna drepa þá en Frodo heldur því statt og stöðugt fram að þeir komist ekki af án hans og er farinn að taka meira mark á Gollum en vini sínum Sam. Ferð þeirra í Mordor er mjög trú því sem gerist í bókinni sem ég var mjög ánægður með. Það er ekki alltaf sem maður hefur fundist vera samasem-merki milli atriða bókarinnar og atriða myndarinnar en hér leið mér nákvæmlega eins og þegar ég las bókina. Þremenningarnir leika þetta mjög vel. Gollum er eins og áður gífurlega spennandi karakter sem tekur miklum breytingum eftir því sem á líður og sálarkvöl hans eykst. Elijah Wood fer mjög vel með hlutverk Frodo rétt eins og áður og var persóna Frodo mjög lík þeirri sem ég man eftir úr bókinni.
Það er hins vegar Sean Astin sem að stendur greinilega upp úr. Ég hef verið mjög ánægður með hann í fyrri myndunum en hér lætur hann sko ljós sitt skína. Sean nær Sam alveg frábærlega og án efa á hann eftir að koma upp í hugann næst þegar maður les bókina. Margir spá honum tilnefningu til Óskars verðlauna.
Atriði sem að margir söknuðu í lok The Two Towers var atriðið með Shelob og það atriði var þess virði að bíða eftir. Gífurlega spennandi.

Hinn hluti myndarinnar snýst að mestu leyti um stórorustuna við Mínas Tírith, borg Gondormanna. Þeir Gandalfur, Aragorn, Legolas og Gimli hitta félaga sína á ný við Ísarngerði, þá Merry og Pippin. Hér, eins og margir vita, vantar senu sem klippt var úr á síðustu stundu þar sem hún var sögð eyðileggja flæði myndarinnar. Þó ég hafi vissulega viljað sjá senuna og hlakka til að sjá hana í lengri útgáfu myndarinnar þegar að því kemur, þá er nú að málunum búið þannig að það skiptir ekki öllu máli þó hana vanti. Sagan heldur áfram, það er snúið aftur til Edóras þar sem sigrinum við Helm’s Deep er fagnað. Pippin gerir mikil mistök þegar hann er forvitinn sem verður til þess að Gandalfur tekur hann með sér til Mínas Tírith þar sem stórorusta er framundan, á meðan Théoden og Aragorn sjá um að safna saman eins mörgum Róhansriddurum og þeir geta til þess að geta komið Mínas Tírith til bjargar.
Eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar er einmitt þegar Gandalfur og Pippin koma á áfangastað og ríða inn í borgina, ótrúlega vel sviðsett atriði undir stórkostlegri tónlist Howard Shore. Sá sem ræður yfir Mínas Tírith er Denethor ráðsmaður, faðir Boromírs og Faramírs og leikur John Noble hann af stakri snilld. Íbúa Mínas Tírith gera sér grein fyrir að styrjöld er yfirvofandi en Denethor virðist orðið sama, virðist satt að segja að vera missa vitið og Gandalfur tekur nánast við stjórninni í borginni og undirbýr varnir borgarinnar. Hér bættist við mjög skemmtileg viðbót frá Peter Jackson sem ekki er úr bókinni, þar sem kveikt er í vitum Gondor-ríkis sem tákn um neyðarástand og bæn um hjálp. Ian McKellen á einmitt stórt hlutverk í þessari mynd en það voru vafalaust margir sárir eftir The Two Towers þar sem hann var í aukahlutverki; sérstaklega eftir frábæra frammistöðu í Fellowship sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Mér sýnist sem að Ian McKellen gæti átt möguleika á annarri tilnefningu þetta árið , en Gandalfur er einfaldlega frábær í þessari mynd.
Einnig kom mér mjög skemmtilega á óvart að Billy Boyd tókst að sýna hvað í honum býr, en hlutverk Pippins hefur hingað til byggst á gamanleik. Pippin gerist Gondor-hermaður og þjónn Denethors og gerir það virkilega vel. Faramír snýr aftur til borgarinnar og er mun skemmtilegri karakter en í The Two Towers en margir eflaust ekki enn búnir að fyrirgefa Peter Jackson hvernig persónu Faramírs var breytt í þeirri mynd. Ég get fullvissað fólk um að Faramír er eins og hann á að vera í þessari mynd.

Um aðra leikara er það að segja að þeir standa sig mjög vel allir. Miranda Otto er frábær sem Éowyn og hún nær að láta ljós sitt skína í atriði sem bóka-aðdáendur vita vel við hvað ég á. Viggo Mortensen stendur sig mjög vel og þeir Orlando Bloom og John Rhys-Davies einnig. Það einkennir annars allar myndirnar að ekki er að finna neina veika frammistöðu leikara neins staðar.


Saga Arwenar heldur einnig áfram í þessari mynd og nú skilur maður hvert Peter Jackson var að fara.
Á meðan Gondormenn búa sig bardaga eru Róhans-menn að safna saman eins stóru riddaraliði og þeir geta. Aragorn, Legolas og Gimli yfirgefa þá Róhansmenn til þess að feta Dauðraslóð.

Ég var almennt mjög ánægður með hvað gafst tími til að fara í mikið af sögunni. Ég held satt að segja að þessi saga sé sú sem er hvað líkust bókinni. Lítið er um markverðar sögubreytingar, aðalmunurinn á bókinni og myndinni er sú að að það vantaði meira inn í myndina. Þ.e.a.s. það var nokkuð greinilegt að mikið af atriðum hefur verið klippt út til að koma myndinni niður í 3 klst. og 12 mín, atriði sem að skipta ekki höfuðmáli fyrir söguna en gerir hana fyllri og kætir bókaaðdáandann. Ekki einu sinni 3 klst. og 12 mín. virðist vera alveg nóg og ég veit nú þegar um mörg atriði sem tekin hafa verið upp og ég saknaði og við sjáum væntanlega í lengri útgáfunni.

Fyrsti hápunktur myndarinnar (þeir eru margir) er náttúrulega orustan við Mínas Tírith sem ég er nokkuð viss um að sé sú magnaðasta sem sést hefur í bíómynd. Helm’s Deep er náttúrulega bara smáslagsmál samanborið við þessa.

Það skemmir bara fyrir að fara lýsa henni eitthvað.


Í síðasta hluta myndarinnar er reglulega skipt á milli lokaorustunnar og ferð Frodo og Sam að fjallinu og gert að miklu öryggi og frábærri leikstjórn. Ég hafði satt að segja smá áhyggjur af því hvernig farið yrði með það en þær áhyggjur voru óþarfar.
Þrátt fyrir ótrúlega orustu við Mínas Tírith held ég að lokakaflinn sé samt sá magnaðasti. Það er farið fullkomlega með eyðingu hringsins og ég var alveg himinlifandi með þann hluta. Eftir eiginleg lok Hringastríðsins kemur það kannski fólki á óvart hvað myndin heldur lengi áfram eftir það, sem er atriði sem ég var mjög ánægður með. Peter Jackson er nátturulega ekki að skrifa endalok fyrir bara eina mynd, hann er að klára alla trílógíuna og auðvitað þurfti að binda um alla lausa enda og það er gert á þannig hátt að Tolkien aðdáandinn situr grátandi eftir í sæti sínu. Ég hefði satt að segja aldrei trúað að Peter Jackson gæti tekist að komast nálægt þeim tilfinningum sem ég hafði þegar ég kláraði bókina á sínum tíma en það tókst honum svo sannarlega.

Ævintýrið er á enda. Það verða ekki fleiri Lord of the Rings myndir. Sorgleg staðreynd en þó sönn. Það er þó vissulega lengri útgáfa myndarinnar eftir sem kemur væntanlega út eftir tæplega ár (talin vera yfir 4 klst.)og svo er aldrei að vita nema vandamálin er tengjast kvikmyndun Hobbitans leysast einhvern tímann, en Peter Jackson hefur gefið vísbendingar um að hann kynni að hafa áhuga á verkefninu.
Þetta hefur verið ótrúlegt ævintýri og ég held að margir séu Peter Jackson ævinlega þakklátir fyrir ábyggilega bestu ævintýramyndir sem gerðar hefur verið.