Jæja, þá er mál til komið að reyna að troða einhverju í viðbót hér inn á áhugamálið. Ég þakka góðar undirtektir vegna fyrstu greinarinnar og vona að þessi gefi af sér eins skemmtilegar umræður og hún.
Áður en ég byrja vil ég þó benda mönnum á að nauðsynlegt er fyrir alla Tolkien-aðdáendur að glugga aðeins í fornbókmenntir okkar Íslendinga, þó ekki væri nema það. Eins og áður sagði ber þar helst að nefna Snorra-Eddu og frásögn hennar af sköpun heimsins og máttarvalda er þar eru að verki. Jafnvel má einnig rekja ýmsar vísanir Tolkien í enskar og mið-evrópskar bókmenntir til íslenskra höfunda. Svo virðist nefnilega sem það eina sem við gátum gert vel á öldum áður hafi verið að þjálfa íslenska veiðifálkann og að rita sögur erlendra konunga.
Af öðrum sögum en Eddu Snorra ber nú helst að nefna Völsungasögu.
Völsungasaga segir af Völsunga- og Niflungaættunum, risi þeirra og falli, átökum og ástum og að sjálfsögðu af Hringnum.
Hringurinn sem um ræðir er Andavaranautur. Svo virðist sem hann hafi verið einskonar jarðneskur Draupnir, þar sem hann gaf meistara sínum einungis meira gull og þar með völd, frama og frægð.
Frægasta hetja sögunnar er án efa Sigurður Fáfnisbani. Faðir hans er Sigmundur af ætt Völsunga er fær að gjöf frá Óðni sjálfum sverðið Gram. Mestur allra ávinnur Sigmundur sér frægð og frama en á ögurstundu er hann veginn er Óðinn Alfaðir brýtur sverðið. Fyrir þann dag getur Sigmundur þó soninn Sigurð, síðar Fáfnisbana. Sigurður fer í nokkurs konar þjálfun hjá dvergi þeim er Regin kallast. Þessi þjálfun er á nokkurn hátt álík þeirri er Aragorn hlýtur af Elrond í Imladris. Þegar Sigurður er vaxinn úr grasi hittar hann fyrir gamlan mann (að sjálfsögðu Óðinn, eða jafnvel Gandalf?) sem fær honum hestinn Grana. Sá er afkomandi Sleipnis, þess er mestur er allra hesta. Aftur erum við komin með hliðstæðu við Tolkiensk fræði, þar sem Húmfaxi var afkomandi þess kyns er Jarl reið inn á merkur Róhan.
Nú er Sigurður síðan sendur á vit ævintýra af Regin, sem ásælist hringinn ofar öllu. Til fararinnar fær hann sverð föður síns, endursmíðað, í allri sinni dýrð.

Hver heilvita maður sér þarna samlíkinguna. Úr sverði Elendils, Narsil, var smíðað Andúrin, sverð Aragorn, þegar tími hans var kominn til þess að inna af hendi miklar dáðir.
Til þess að gera langa sögu stutta sigrar Sigurður drekann Fáfni er gætir gríðarstórs fjársjóðs og hringsins Andvaranauts. Hann drepur einnig Regin, eftir að hafa orðið uppvís að svikum hans, og eignast hringinn og fjársjóðinn sjálfur. Verður hann nú mestur allra en alltaf ber hann hringinn sem á hvílir bölvun um að ekkert gott skuli af honum hljótast fyrir meistara hans né ætt hans. Á nokkrum viðburðaríkum áratugum sem ég nenni ekki að segja frá hér tekst svo hringnum að gera útaf við tvær hinar mestu ættir þessara alda með því að kveikja öfund og losta í brjóstum manna allra fylkinga.
Vel má vera að hringur þessi sé fyrirmynd að Hringnum eina, hring Saurons. Þó þykir mér eins líklegt að hann eigi sér Tolkienska hliðstæðu í Silmerlinum (The Silmaril). Smíð hans af hendi Fëanor varð honum og hans kyni að falli, ævinlega til bölvunar og niðurlægingar.

Svo ég snúi nú stuttlega aftur að Snorra-Eddu og goðsögnunum munum við eflaust eftir Garmi, hundi þeim er gætir inngangsins í Hel, þann napurlega heim. Eins gilti um Angband, nístingskalda og illskueitraða veröld Morgoth, að hennar gætti úlfurinn Carcaroth.
Carcaroth fellur síðar þegar Beren reynir að keyra hann aftur með því að nota Silmerilinn. Úlfurinn gleypir hönd Berens og Silmerilinn og innsiglar þannig dauðadóm sinn, þar sem steinninn brennir hann að innan.
Þetta endurspeglar dauða Fenrisúlfs í Ragnarrökum, sem áður hafði gleypt hönd Týs. Fenrir gleypir þá Sólina sem brennir hann að innan og eru það endalok hans.

Á næstunni mun ég reyna að bæta hér inn greinum um hliðstæðurnar Seif og Manwë og fleiri góða garpa.
Annars bið ég ykkur vel að njóta og endilega segið skoðun ykkar.