Fyrir nokkru átti sér hér stað umræða um hvort væri verra; að vera nauðgað eða að vera drepinn. Meðal röksemda fyrir að morð væri verra var sú að með nauðgun er fórnarlambinu leyft að velja hvort það vilji drepa sig. Þetta sýnist mér vera mesta bull og vitleysa.

Dulin forsenda þeirrar röksemdar er að við getum auðveldlega tekið ákvarðanir sem hámarka eigin farsæld. Hún er augljóslega röng, og það hrapallega. Ekki nóg með að við vitum oft ekki hvað hámarkar eigin hamingju, heldur eigum við oft í basli með að velja það líka. Við vitum að til skamms tíma er fróun af nammiáti, en að það sé að öðru leyti slæmt. Líkamar okkar eru gerðir til að sækja í sykur, enda voru þeir mestmegnis smíðaðir á tímum þegar sykur var gagnlegur en illfáanlegur. Nú er hann hins vegar úti um allt. Líkaminn okkar er tímaskekkja.

Þetta sama gæti gilt um dauðann. Við erum ekki smíðuð til að vera hamingjusöm. Við erum smíðuð til að dreifa erfðaefni okkar sem mest og varanlegast, og hamingja er leið erfðaefnis til að aga taugakerfið í þeim tilgangi. Dauðinn er helsti óvinur fjölgunar, og eðlilegt að við forðumst hann í lengstu lög, jafnvel þótt eilífðar óhamingja bíði okkar. Í slíku tilfelli virkar dauðinn eins og nammið, nema að hann er fælandi, ekki tælandi. Hann verkar eins og þröskuldur á aðgerð sem gæti aukið farsæld okkar með því að sleppa þeirri þjáningu sem eftir er.

Ég vildi líka tæpa á athugasemd þráðarhöfundarins, sem segir að þeir sem segja nauðgun verri kostinn séu að lasta nauðgarann fyrir að hafa ekki drepið hinn nauðgaða í þokkabót. ("Fórnarlamb" þykir mér undarlegt og óviðeigandi orð í þessu samhengi.) Þetta gerir ráð fyrir að maður telji nauðgunina sjálfa hverfandi part þjáningar hins nauðgaða, sem er ósennilegt.

Að öllu þessu sögðu tek ég þó fram að ég er sammála því að morð er almennt verri kosturinn, þó það fari eftir aðstæðum.