Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar í dag er að halda Íslandi í flokki “norrænna velferðarþjóða” (eða koma Íslandi í þann flokk, eftir því hvern þú spyrð). Steingrímur og Jóhanna tala mikið um þetta og láta alltaf eins og þetta sé mjög eftirsóknarvert og ákjósanlegt markmið.
En hvað er átt við með norrænu velferðarkerfi og afhverju ættum við að vilja lifa í slíku kerfi? Það er enginn ein algild skilgreining á hinu norræna velferðarkerfi, en almennt þá er átt við ókeypis heilbrigðisþjónustu, ókeypis menntun og öryggisnet sem tryggir atvinnuleysisbætur, ellilífeyri, örorkubætur og álíka. Hljómar nokkuð vel, ekki satt?
Áður en þú svarar þessu, þá skulum við pæla aðeins í því hvað nákvæmlega felst í velferðarkerfum. Í því skyni skulum við líta á mjög einfaldar aðstæður.
Ímyndaðu þér að þú eigir vin(ég veit, erfitt fyrir suma Hugara, en þið ráðið vonandi við það). Köllum hann Jónas. Þið Jónas hafið verið vinir síðan í 1.bekk grunnskóla og alltaf komið vel saman. Núna eruð þið orðnir fullorðnir og sameiginlegur félagi ykkar, Nína, biður ykkur um aðstoð við það að fæða og klæða börnin sín, nokkuð sem hún heldur fram að hún sé ekki fær um. Þér finnst þetta sjálfsagt og gefur henni peninga. Jónas er ekki alveg jafn sannfærður. Hann neitar að gefa henni peningana sína. Þú reynir að sannfæra hann um að hjálpa Nínu, en hann þvertekur fyrir það. Er í lagi að þú beitir Jónas ofbeldi til þess að neyða hann til þess að hjálpa Nínu?
Hvað með ef að þið eruð 10, og 6 eru samþykkir því að beita Jónas ofbeldi til þess að neyða hann til þess að hjálpa Nínu? Er það í lagi þá?
Ef þú svaraðir þessum spurningum neitandi, afhverju finnst þér það í lagi þegar þið eruð orðin 320.000 og þið kallið ofbeldið skattheimtu? Því skattheimta er auðvitað lítið annað en ofbeldi. Hvað gerist ef þú borgar ekki skattana þína, eða borgar bara hluta af þeim? Þú færð ítrekun og viðvaranir. Á endanum verður þú handtekinn og settur í fangelsi nema þú samþykkir að borga. Svo velferðarkerfið er í grunninn ekkert nema hópur af fólki sem neyðir Jónas til að hjálpa Nínu með hótunum um ofbeldi. Því er velferðarkerfi ekki ein af undirstöðum þess samfélags sem ég vil lifa í , og vonandi ekki heldur ein af grunnstoðum þess samfélags sem þú vilt lifa í.

Disclaimer: Ég er ekki á móti því að hjálpa fólki, svo plís, ekki svara mér með einhverju röfli um að ég hati fátækt fólk. Ég er á móti ofbeldi og þar með velferðarkerfinu. Ég er ekki á móti góðgerðarstarfsemi, mér finnst bara að það eigi ekki að neyða fólk til þess að taka þátt í henni.
www.brotherhoodofiron.com