Ég verð að fá að nöldra aðeins um það hversu óheppin ég get verið. Reyndar er þetta hætt að vera pirrandi og eiginlega orðið fyndið.

Til að byrja með ætla ég að segja frá fyrsta símanum mínum, Nokia 3310, eins og allir áttu. Hann var einhverntímann í töskunni minni í skólanum og þegar ég tók hann upp hafði hluti af skjánum skemmst og það var blekklessa í einu horninu. Ég sendi hann í viðgerð, þeir skemmdu skjáinn meira og sögðu mér að það væri of dýrt að laga hann.

Jæja, næsti sími var líka eins og allir áttu, Sony Ericsson eitthvað. Hann var með svona takka sem var eins og stýripinni. Auðvitað skemmdist takkinn.

Síminn sem ég á núna er örugglega undarlegastur. Hann á það til að detta í sundur og batteríið dettur úr svo ég þarf alltaf að stilla tímann uppá nýtt. Ég held að það sé þess vegna sem hann á það til að núllstillast upp úr þurru, sem er alveg frábært þegar maður notar hann sem vekjaraklukku á skóladegi. Núna nýlega komst ég að því að hleðslutækið fyrir hann virkar bara alls ekki.

Ég fékk líka ótrúlega flotta vekjaraklukku í gjöf einu sinni. Hugsaði mér að ég gæti frekar treyst á hana heldur en símann. Nei, hún stillir sig stundum upp á nýtt, örugglega eftir einhverju tímabelti sem ég stillti á að gerðist ekki. Hún var líka með þessu æðislega laser ljósi sem sýnir klukkuna á vegg. Það er ónýtt.

Einu sinni keypti ég mér Canon IXUS myndavél. Hún datt einhverntímann í gólfið, ekki mjög hátt reyndar, hafði lent í meiri áföllum held ég. Hún hætti að fókusa

Þá keypti ég mér nýja myndavél. Neinei, minniskortið fór í kerfi í hvert skipti sem ég tengdi við tölvu og fullt af myndum töpuðust.

Loksins keypti ég mér alvöru græju, Canon EOS 400D (svona “alvöru” myndavél). Hún var alltaf batteríslaus. Það kom þá í ljós að móðurborðið var eitthvað bilað þannig að það lak stanslaust útaf batteríinu.

Fyrsta fartölvan sem ég átti var reyndar ekkert frábær græja, einhver ódýr HP tölva. Hún dugði ágætlega þangað til allt í einu hleðslutækið hætti að virka (á sama tíma og hleðslutæki vinkonu minnar bilaði, hún keypti alveg eins tölvu á sama tíma. Grunsamlegt). Ég keypti mér bara nýtt, svona sem virkar fyrir margar gerðir af tölvum með því að skipta um tengi. Það dugði alveg nokkrar vikur þangað til allt í einu það hætti að virka og tengið var fast inní tölvunni. Þegar ég fór með hana í búðina kom í ljós að plastið sem var fremst á tenginu hafði bráðnað. Ég kláraði alveg 4 svona tengi áður en hleðslutækið bara hætti að virka. Stuttu eftir það (fékk lánað hleðslutæki) varð tölvan bara svört, hefur aldrei farið í gang aftur.

Ég fékk lánaða aðra tölvu sem hafði verið til heima hjá mér. Skjákortið eyðilagðist eftir nokkrar vikur.

Nú er ég komin með þessa fínu macbook tölvu. Það er ekki hægt að skrifa geisladiska í henni lengur. Og í dag kórónaði ég allt með því að brjóta klóna á hleðslutækinu (það er svona lítið stykki sem maður getur notað til að stytta snúruna, á sem betur fer aðra snúru til að nota).

Ég gæti verið að gleyma einhverju … Man bara ekki eftir að hafa átt fleiri raftæki, nema iPodinn minn sem er ennþá eina tækið sem ég á sem hefur ekki bilað.

Ég er ekki manneskjan sem fer illa með hlutina mína. Ég fer ekki með myndavélina mína á djammið (of dýr fyrir það) og ég er ekki að missa tölvuna mína eða neitt svoleiðis. Held að ég sé bara óheppin :/