Jæja núna er verið að reyna að koma í gegn frumvarpi á Alþingi sem bannar algjörlega reykingar á skemmti- og veitingarstöðum og í nánasta umhverfi eftir 1 1/2 ár. Verður gaman að sjá miðbæinn troðfullan af fólki úti á götunum aftur og sjá gömlu góðu slagsmálin sem voru á fyrri opnunartímum. Þetta sýnir hvernig við hlaupum á eftir öðrum vestrænum þjóðum eins og einhverjir heilalausir apar í forræðishyggjunni. Frelsið sem áður var svo mikilvægt er metið minna en klósettpappír. Ekki má tjá sig frjálst í frjölmiðlum eða kveikja sér í rettu á einkastöðum þar sem eigendurnir vilja leyfa það.

Nú þegar meirihluti landsmanna eru reyklausir af hverju gengur þá svona illa að opna reyklausa staði? Af því að þeir reyklausu láta sig hafa það. Þetta er flestum ekki svo mikilvægt að fólk nenni að sniðganga staði eða opna fleiri reyklausa staði. En samt eitthvað sem fólk segir ekki nei við og er því alveg til í að stjórnvöld þröngvi þessari frelsisskerðingu yfir alla eigendur skemmtistaða. Er þetta Kína eða Ísland? Af hverju ekki að virða frelsi annarra til að hafa eigin reglur á eigin stöðum? Enginn neyðir reyklausa til þess að vera á stöðum sem leyfa reykingar.

Finnst frábært þegar skemmtistaðir t.d. skipta svæðunum eða hafa mjög góða loftræstingu. Ég mun fagna því ef fleiri eigendur spá í þessu og gera breytingar handa þeim reyklausu í hag. Sjálfur fíla ég ekki að fara á mjög lokaða staði með lélega loftræstingu þar sem maður sér varla í gegnum reykinn. En að banna þetta almennt eru mjög miklir öfgar og ekki réttlætanleg frelsisskerðing á eigendum skemmtistaða. Ef þetta verður samþykkt þá vona ég innilega að það verði mjög erfitt að fara eftir þessu og að fólk mótmæli því.