Stjórnvöld í gömlu Sovétlýðveldunum frömdu mörg grimmdarverk í sinni tíð sem erfitt hefur reynst að bæta fyrir svo vel sé. Mannslífum var fórnað og fólksflutningar, jafnvel þjóðflokkaflutningar voru stundaðir til hagræðingar fyrir stjórnvöld. Einn versti glæpur kommúnista var þó sú gjörnýtingarstefna á náttúruauðlindum sem rekin var á þessum árum. Geislavirk uppistöðulón eru vítt og breytt um gömlu Sovétríkin og gamlir og uppþornaðir árfarvegir skera sandfoka auðnir sem áður voru grasi grónar. Risastór stöðuvötn eru á góðri leið með að hverfa, td Aralvatn og stjórnvöld í dag standa frammi fyrir því risavaxna verkefni að leiðrétta þessa fortíðarglæpi fyrirrennara sinna, þ.e.a.s. gömlu kommúnistastjórnarinnar. Þessa glæpi frömdu kommúnistar með skammtímagróðasjónarmið að leiðarljósi, þeir hugsuðu reyndar aldrei lengra en 5 ár fram í tímann og hlutu háðung og fordæmingu vestrænna ríkisstjórna að launum. Ég skammast mín. Sem þegn þjóðfélags sem kosið hefur yfir sig ríkisstjórn sem hefur tekið sér til fyrirmyndar fyrrnefnd skammtímagróðasjónarmið kommúnismans og hyggst fórna ósnortinni náttúru landsins í þeim tilgangi einum að Amerískt álfyrirtæki geti grætt nokkrum milljón dollurum meira en þeir gera nú þegar. Þeir segjast í ríkisstjórninni vera að skapa atvinnu fyrir austfirðinga, en þar er í raun lítið sem ekkert atvinnuleysi. Nei, landið skal eyðilagt hvað sem hver segir, jökulfljót sem hefur mestan aurframburð allra jökulfljóta og er þ.a.l. afar óhagkvæmt að virkja, skal samt sem áður virkjað. Virkjun með líftíma upp á varla meira en 50 ár skal byggð og viðkvæmt hálendið norðan Vatnajökuls verður gert enn viðkvæmara. Búast má við að sandfok vegna virkjunarinnar verði svo umtalsvert að öll uppgræðsla lands á stórum svæðum hálendisins muni á ný færast undir sand og austfirðingar mega búast við að þurfa að þvo bílana sína mun oftar en áður og skola nokkrum sandkornum meira úr augum sér en áður. En það má nú leggja ýmislegt á sig í staðinn fyrir að fá vinnu í álveri. Lifið heil.