Ég væri til í að taka þátt í stofnun hreyfingar sem hefði eftirfarandi á stefnuskrá:

Meginmarkmið:
Að auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja. Setja hagsmuni fjölskyldunnar í öndvegi með öflugri velferðarstefnu. Bæta inn í stjórnarskrá landsins ákvæði um hámarks skattprósentu sem leggja má á einstaklinga. Stjórnarskráin á að vernda einstaklinga frá ofríki ríkisvaldsins og þar með talið of þungri skattbyrði. Frjálslyndi, jöfnuður og réttlæti skulu vera einkunnarorð nýrrar hreyfingar. Lög og eftirlit gegn hringamyndum og einokun fyrirtækja skal eflt. Stuðlað skal að samkeppni á jafnréttisgrundvelli.

Stefnumál sem koma á til framkvæmdar á næsta kjörtímabili:

1. Lækkun tekjuskatts úr 38,54% í 35%.
2. Barnabætur greiðist óháð tekjum til 18 ára aldurs.
3. Virðisaukaskattur lækki af öllum matvörum og verði 12%.
4. 10% fjármagnstekjuskattur dragist af happdrættisvinningum og lottó vinningum.
5. Viðurlög vegna skattsvika hækki verulega.
6. Átak verði gert í eftirliti gegn skattsvikum. Viðurlög hækki.
7. Þingmönnum verði fækkað í 50.
8. Forsætisráðherra skipi ráðherra í ríkisstjórn.
9. Sendiráðum verði fækkað um 25%.
10. Nefndum á vegum ríksins verði fækkað um 25%.
12. Tollar á hvítu kjöti verði afnumdir í áföngum og innflutningur á því leyfður.
13. Ráðherrabílum verði fækkað um helming og þeir samnýttir. Leigubílar notaðir ef þörf krefur.
14. Einkarekstri komið á í heilbrigðis- og menntakerfinu þar sem það er hagkvæmara og skilar bættri þjónustu fyrir neytendur þó án þess að það leiði til hækkunar á kostnaði þeirra sem njóta þjónustunar.
15. Fyrningarleið tekin upp í sjávarútvegi. Nefnd sett á laggirnar til að “leita uppi” útvegsmenn sem fengu milljarða að gjöf frá þjóðinni með kvótaúthlutun og þeir skattlagðir sérstaklega eða með afturköllun á kvótaúthlutun. Tekjurnar sem fengust af sölu á innkomnum kvóta notaður til að efla heilbrigðis- og menntakerfið.
16. Könnunarviðræður settar af stað við Evrópusambandið þegar samningsmarkmið Íslendinga lægju fyrir.
17. Forsetaembættið lagt niður. Forseti alþingis eða forsætisráðherra sinni embættisverkum hans í staðinn. Bessastaðir nýttir sem Þjóðminjasafn. Þjóðminjasafnið gefið Háskóla Íslands til afnota.
18. Embættið umboðsmaður aldraða sett á laggirnar.
19. Seðlabankastjóri verði aðeins einn og verði ráðinn út frá faglegu sjónarmiði. Sjálfstæði bankans í peningastjórnun aukið.