Ástæða þess að ég skrifa þennan pistil hérna er sú að ég er svona ágætlega gramur yfir því hvernig ráðamenn ráðskast með þjóðina. Í pistli þessum ætla ég að minnast á nokkur málefni og hvernig ráðamenn hafa algjörlega hunsað vilja þjóðarinnar varðandi þau.


Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál.

Framkvæmdastjóri Landsvirkjunar Friðrik Sófusson lét nýlega hafa eftir sér að nýleg skoðunarkönnun hefði mælt fylgi við virkjunar og álversáform nálægt 60%. Slíkt er mjög skiljanlegt þar sem að skoðanarkannanir henta ekkert sérlega vel til þess að mæla skoðanir almennings. Skoðanarkönnunum er ekki endilega beint að fólki með strangar skoðanir á hlutunum heldur er skoðanakönnunum beint að hverjum sem er. Sama manneskja og segir fylgjandi í símtól nennir ekkert endilega að dröslast á kjörstað og kjósa. Manneskja sú er segir fylgjandi í símtól gæti þess vegna verið nákvæmlega sama um þetta málefni og skort alla þekkingu á því. Ennfremur vil ég minnast á það að ef að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi um þessi áform þá myndu þeir er vita um fylgikvilla þessara áforma hækka róm sinn til muna. Það er hægt að mjaka þessum áformum framhjá Íslensku þjóðinni en það er EKKI hægt að fá hana til þess að samþykkja þau.

Landsíminn.

Ég man nú reyndar bara alls ekkert hvar ég heyrði þetta en ég man þetta nú samt skýrt, skoðanakönnun sýndi skýrt fram á það að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur einkavæðingu landsímans. Viðbrögð “hæstvirts” samgönguráðherra við þessum tíðindum voru ef mig minnir rétt þau að hann sagði að fræða þyrfti þjóðina betur um þessi málefni.

Ríkisábyrgð Íslenskrar erfðagreiningar.

Skoðanakannanir sýndu skýrt fram á það að Íslenska þjóðin kærði sig alls ekkert um það að veita Íslenskri erfðagreiningu neina Ríkisábyrgð fyrir sínum lánum. Samt sem áður var ekkert verið að bíða með það að samþykkja lög er heimila fjármálaráðuneytinu að veita slíka ábyrgð, reyndar er það skiljanlegt því að auðvitað hefur fjármálaráðherra ómælda og mjög verðmæta ánægju af því að drottna og deila.

Ríkisútvarpið.

Íslenska þjóðin elskar sína Ríkissjónvarpsstöð og sínar ríkisútvarpsstöðvar. Íslendingar hafa gaman af því að hittast í bönkum með ríkisútvarpsgíróseðlana sína. Íslendingar telja afnotagjöldin ríkisútvarpsins sanngjörn og jákvæð. Íslendingar fyrirlíta þá aumingja er ekki borga sín afnotagjöld og finnst þeir eiga sínar lögsóknir skilið. Íslendingar telja löggjöf og góðan rekstur ríkisútvarpsins vera sönnun ágætis núverandi lýðræðiskerfi.


Þó svo að Alþingi hafi á sínum tíma sett ágætis lög um Ríkisútvarp og reki það með “sóma” þá finnst mér nú samt sem áður Alþingi hunsa vilja almennings óafsakanlega oft.

Takk fyrir mig.