Með háþróaða upplýsingaþjónustu, opnast margir möguleikar á samfélagsbreytingum sem gaman er að velta fyrir sér. Með nýja möguleika á sviði upplýsingaþjónustu, væri það ekki æskilegt ef einstaklingurinn gæti tekið virkan þátt í ákvörðunum eins og:

–Landsvirkjunarmálið og Impregilo–
–Aðrar virkjanir–
–Að styðja stríðið í Írak–
–Að veita Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt–

Þetta æskilega fyrirkomulag er ekki til staðar í dag vegna þess hversu ómögulegt það var að koma á lýðveldi í sínu ‘ideal’ formi. Lýðveldi þurfa að þróa einhverskonar fulltrúastjórn (Representative Government) – Alþingi. Þessi kostur hefur verið langlífur á Íslandi og hefur augljóslega komið okkur þetta langt. En, á sama tíma, hefur fulltrúastjórn í för með sér mjög áhrifaríkar breytingar á hið ‘fullkomna lýðveldi.’

Helsti ókostur fulltrúakerfisins er sá að einstaklingurinn getur einungis valið á milli stjórnmálamanna en ekki haft neitt að segja í þeim málefnum sem varða samfélagið. Þetta þýðir það að þjóðin getur einungis myndað heild og sameinast í ákvörðun þegar hún er spurð hvort Nonni út í bæ eða Sandra út við sæ sé betri.

Það fulltrúakerfi sem nú er í gildi hefur orðið til þess að stétt stjórnmálamanna einokar allt ákvörðunarvald samfélagsins. Mér sárnar sú hugsun að þjóðarheildin, ímynd hennar og afstaða, skuli vera stjórnað af þessari einu stétt.

Það hjálpar heldur ekki hvað við erum fámennt samfélag. Eins og raun ber vitni, getur þessi einokun valds orðið til þess að sérstakir hópar fólks í samfélaginu geta orðið geysilega valdamiklir og þannig stýrt ákvörðunum sér í hag. Í fámennu samfélagi er auðveldara að mynda tengsl milli áhrifaríkra hópa fólks - efnahagsráðandi og pólitíkusar. Á Íslandi eru nauðsynlega sterkt tengsl á milli ríkra og stjórnmálamanna – ÞESS VEGNA er nauðsynlegt að auka lýðræði almennings á Íslandi – fólksins fyrir utan þessa litlu áhrifaríku hópa.

Kerfið sjálft skapar þessa einokun valds. Stéttarskiptingin gerir stjórnmálamönnum kleift að tala niður til almennings og afskrifa afstöðu hans líkt og Davíð gerði þegar 84% þjóðarinnar vildi vera tekinn af þeim lista sem studdi stríðið í Írak (Jan, 2005). Stéttarskiptingin ýtir undir ‘óttann við múginn’; ýtir undir þá trú að einstaklingurinn hafi ekki hæfileika til að myndað rökstudda ákvörðun í pólitískum málefnum. Höfundur fullyrðir það að almenningur er fullfær um það að taka pólitískar ákvarðanir ef hann hefur aðgang að öllum þeim upplýsingum sem til þess krefsts.

Það er ljóst að svo hægt sé að vinna úr öllu því sem snertir pólitík í samfélaginu, verður lýðveldið að mynda fulltrúakerfi. Það er því ekki hægt að kasta stöðu stjórnmálamanna á glæ, heldur verðum við að endurhugsa þá milliliði sem liggja á milli ákvarðarinnar og almennings.

Ég tel að með nýju upplýsingakerfi og nýrri tækni, getum við þróað nýja kynslóð lýðræðis og miðlað öllum samfélagstengdum upplýsingum til almennings á lágmarks kostnaði. Höfundur hefur þróað hugmyndir um ‘Almiðil’ á Íslandi - Almiðill gefur Íslendingum færi á að þróa lýðveldi framtíðarinnar. Með Almiðli getum við forðast þær hindranir sem lágu í vegi forfeðra okkar.

http://gestsson.tripod.com/almidill