Nýtt afl rís, í austri, vestri, suðri og norðri. Þetta er nýtt afl, ferskur vindur í íslenskum stjórnmálum. Ný forysta. Forysta sem aldrei mun ljúga að kjósendum, forysta sem aldrei mun þurfa að ljúga. Því við gerum það sem við meinum og við meinum það sem við gerum.

Hér birti ég stefnuskrá eiginhagsmunaflokksins í núverandi mynd. Í eiginhagsmunaflokkinum eru í augnablikinu tveir aðrir vinir mínir en ykkur er öllum velkomið að taka þátt í baráttunni fyrir okkar og auðvitað sér í lagi mínum hagsmunum. Markmiðin eru eftirfarandi:

Að setja frænda minn og besta vin í hæstarétt.

Að stofna fyrir peninga skattgreiðenda særækju eldi í vestmannaeyjum í gömlu kvínni hans Keikó, afhverju? Af því mér hefur alltaf langað til þess…

Að stofna íslenska leyniþjónustu og her. (Af því það er töff).

Ég heiti því að ég mun alltaf ráða vini mína og vandamenn í allar mikilvægar stöður og þar með spara ég erfiði allra annara hæfileika ríkra manna (og eflaust sér í lagi kvenna) við það að sækja um starf hjá mér.

Það verða reistar styttur af mér.

Meiri peningar verða settir í háskólanám og öll skólagjöld niðurgreidd. (Ég er á leiðinni í háskóla)

Ykkar peningar verða settir í bók um tíð mína og afrek í forsætisráðuneytinu.

Ég mun gera tilraun til að fela allar skuldir ríkisins með því að sópa þeim öllum inn í eitt ríkisfyrirtæki. Orkuveitan er í augnablikinu upptekin svo ég hugsa að ég noti Landsvirkjun.

Ég mun þakka mér fyrir öll afreksverk íslensku þjóðarinnar.

Allur umfram hagvöxtur rennur beint í eftirlauna sjóð foreldra minna.

Ég mun reisa styttu af mér. Og mögulega tryggum vinum í baráttunni. (Þó ekki eins stóra).

Ég mun reisa minnismerki um mig með því að setja stór glerþök yfir vatnstanka.

Ég mun bjóða í heimsókn hingað einræðisherrum sem hafa gaman af Karíókí. (Því ég hef gaman af Karíókí).

Einkavædd ríkisfyrirtæki verða einungis seld til flokksbundinna eiginhagsmunaseggi.

Ég mun stofna fullt af nefndum og verðlauna þá sem hlæja að bröndurunum mínum með stöðu í nefndunum og þar með bættu kaupi.

Ég mun kaupa fyrir peninga ríkisins stóra Garfield skopmyndasafnið og stofna safn upp á Snæfellsjökli svo komandi kynslóðir njóti þess.

Bara flokksbundnir eiginhagsmunaseggir mega eiga meirihluta í fjölmiðlum landsins.

Ég mun setja flokksbundinn eiginhagsmunasegg á besta dagskrártíma ríkissjónvarpsins og oft mæta í viðtal til hans.

Ég mun banna tónlist sem ég fíla ekki. Eins og Hljóma.

Ég mun fara í utanlandsreisur á ykkar kostnað.



X-E

að minnsta kosti ljúgum við ekki.