ég hef hlustað af athygli á umræður um yfirvofandi innrás Bandaríkjamanna í Írak. Þar fer hæst tilfinningaþrungin umræða um þá skelfingu sem slík innrás væri gagnvart íbúum Írak. Gjarnan er slík umræða kryddum með niðrandi ummælum um Bandaríkin, og þeir sem eru fylgjandi afstöðu Bandaríkjamanna stimplaðir kanasleikjur.

Evrópuþjóðirnar eru klofnar í afstöðu sinni, þar sem dyggastur stuðningur kemur frá ríkisstjórn Tony Blair, en Frakkar og Þjóðverjar eru áberandi samherjar á móti. Athyglisverðust finnst mér þó þögnin í austri. Arabaþjóðirnar sjálfar eru greinilega fylgjandi því að Saddam Hussain verði rekinn frá völdum. Þessi skilaboð eru ekki send með þögninni einni saman, heldur sýna þessar þjóðir fullan stuðning í verki með því að veita hersveitum Bandaríkjamanna aðstöðu á landi og yfirflugsheimildir þar sem það þarf.

Það verður ekki framhjá því horft, að Írak hefur allt sem þarf til að bera, til að vera mesta velmegunarríki heims. Þetta er frjósamt land, með árnar Tígris og Efrat til áveitu, og þar á ofan situr landið á einhverjum mestu olíulindum heimsins.

Þrátt fyrir þessi náttúruauðæfi eru íbúarnir illa menntaðir og búa við örbirgð. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Landið er ýmist búið að vera í styrjöld eða viðskiptabanni undanfarinn aldarfjórðung.

Allar þjóðir heims eru sammála um að ekki sé verjandi að aflétta viðskiptabanninu á meðan Saddam Hussain situr við völd. Nú hlýtur að vakna sú spurning, hvort betra sé að Bandaríkjamenn fari inn í Írak og steypi Saddam af stóli, eða að bíða þangað til Saddam fer frá völdum af einhverjum öðrum völdum. Ef Saddam fer ekki sjálfviljugur frá völdum, þá eru valkostirnir ekki kræsilegir fyrir Írösku þjóðina.

Þó Saddam sitji þar til hann deyr úr elli, eða verður ráðinn af dögum, sem er sú aðferð sem hann notaði sjálfur til að komast til valda, þá mun annar óstöðugur einræðisherra taka við af honum, hvort sem það er sonur hans eða morðingi, sem aftur gæti verið sami aðilinn án þess að hafa gengið lengra í illmensku en Saddam sjálfur.

Nú gagnrýna andstæðingar styrjaldar Bandaríkjamenn fyrir tvískinnung, og benda á að fólk sé kúgað af illum einræðisherrum í fleiri löndum án þess að Bandaríkjamenn sjái ástæðu til að bjarga þeim. Þessir aðilar vilja meina að eina ástæðan fyrir yfirvofandi innrás sé girnd Bandaríkjamanna á olíubirgðum Írak.

Umræða af þessu tagi er innantóm og drepur á dreif alvöru málsins. Staðreyndin er sú að það eru óskaplega fáar þjóðir, sem hafa bæði ofbeldisfullan einræðisherra, og nægan náttúrulegan auð, sem auðvelt er að koma í verð, til að fjármagna uppbyggingu á gereyðingarvopnum.

Það væri glæpsamleg vanræksla siðmenntaðra þjóða, að koma ekki í veg fyrir að slíkur einræðisherra komist í þá aðstöðu að ógna heimsbyggðinni. Það þarf ekki að skoða feril Saddam Hussain lengi til að sjá til hvers hann er líklegur ef hann kemst yfir langdrægar eldflaugar sem borið gætu þau sýkla- og efnavopn, sem hann hefur sannanlega framleitt og notað áður.

Saddam keypti á sínum tíma Scud-B flaugar af Rússum, en þær draga 320km. Á sama tíma var þróunarvinna í gangi á eigin flugskeytum, Tammuz 1, sem dró 2.000km, og Al Abid sem dró meira en 2.500km. Ef Saddam hefði hinsvegar nægilegt fjármagn til að kaupa langdrægar Rússneskar SS flaugar, þá gæti hann sent flugskeyti á skotmark í 10-13.000km fjarlægð.

Saddam Hussain hefur kallað þvílíkar hörmungar yfir þjóð sína á valdatíma sínum. Varlega áætlað, hefur Saddam fórnað um hálfri milljón þegna sinna, og tvisvar sinnum fleiri sára, í styrjöldum við nágranna sína, og þjóðarbrot innan eigin landamæra.

Íraska þjóðin hlýtur að hafa þjáðst nóg, og vonandi er hægt að reka nógu öflugt áróðursstríð til að íraskir hermenn leggi niður vopn frekar en að reyna að berjast við Bandaríkjamenn.

Hinsvegar, ef Sameinuðu þjóðirnar geta séð sóma sinn í að sameinast, og samið við Arabaþjóðirnar um að standa saman, og styðja uppbyggingu Írak, þá er það mín trú að komandi kynslóðir Íraka verði þeim ævarandi þakklátar.

Það virðist einnig, fljótt á litið, kyndugt að sjá þjóðir, sem eitt sinn báðu Bandaríkjamenn í lengstu lög að bjarga sér undan ofríki ofbeldisfulls einræðisherra, núna sameinaðar í að meina þeim að gera það sama fyrir írösku þjóðina.

Hvað sem öllu þessu líður, þá er ég þeirrar skoðunar að Ísland eigi að hegða sér í samræmi við herleysi landsins, lýsa yfir hlutleysi sínu, og sýna með því meira sjálfstæði en núverandi ríkisstjórn gerir.
My life for Aiur!