Nú rær hin ramma sérhagsmunaríkisstjórn lífróður til þess að halda velli í komandi kostningum. Hryllingurinn sem hefur verið í vösunum á þeim sem síst skyldi lofar nú allt í einu skattalækkun. Það er að vísu ekki búið að lofa því að þessi lækkun sé til handa smælingjunum, ef ég veit rétt, en mér virðist það vera látið í veðri vaka að a.m.k. örlítil hlutdeild sé ætluð þeim. Það er í meira lagi undarlegt að fylgjast með þessu. Forysta Sjálfstæðisflokksins sem hefur látlaust í mörg ár skrumað um að kaupmáttur almennings hafi aukist svo mikið að skattalækkanir séu með öllu óþarfar þarf nú allt í einu að bregðast við til að tapa ekki kostningum og lofa skattalækkun. Mikið er nú vanþakklæti okkar launaþrælanna sem þökkum ekki okkar ástsæla leiðtoga, þjóðskáldi og aðalritara fyrir allan kaupmáttaraukann. Það skyldi þó ekki vera að kaupmáttaraukinn sé bara grilla í hausunum á forystu Sjálfstæðisflokksins. Stefna flokksins hefur verið sú að láta breiðubökin njóta allra skattalækkana. Rökin eru þau að það gagnist öllum þar sem peningamennirnir fjárfesti og skapi öðrum atvinnu. Það er ekki annað hægt en að hlæja að íhaldinu - það er ekki að sjá að stórfelldar skattalækkanir til handa peningamönnunum séu að skila sér í aukinni atvinnu nú þegar atvinnuleysi er komið á alvarlegt stig. Raunar svo slæmt stig að ríkið þarf að fara í stærstu framkvæmd sögunnar til þess að algjör stöðnun verði ekki í efnahags og atvinnumálum hér á klakanum. Framkvæmd þar sem gróflega er gengið í skrokk á náttúru Íslands. Hvert fara peningamennirnir með sinn lítt skattaða arð og tekjur? Hvað heitir það? Jómfrúreyjar eða eitthvað svoleiðis.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gróflega gengið í vasa þeirra sem fjárhagslega standa veikt eins og t.d. námsmenn. Skattleysismörk hafa verið lækkuð niður úr öllu valdi. Skólagjöld á tekjulitla/tekjulausa framhaldsskólanemendur hafa verið hækkuð um mörg hundruð prósent á aðeins nokkrum misserum. Nýjasti skatturinn heitir úrvinnslugjald og er viðbót við bifreiðagjöldin. Ég hef grun um að í Valhöll séu reglulega haldin s.k. “brain storming” þar sem Bubbi og Geiri láta sér detta í hug nýja skatta sem hægt er að læða að fólki svo lítið beri á. Mig langar að nefna nokkur dæmi: innritunargjald, efnisgjald, forritagjald, vistunargjald, endurinnritunargjald, námsmat. Þessir skattar nefnast einu nafni skólagjöld og hefur ríkisstjórnin verið að útvíkka og auka þessa skattheimtu. Íslenskir námsmenn njóta ekki skattaívilnana heldur þvert á móti þá eru þeir aukaskattaðir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur samviskusamlega komið því á að íslenskir námsmenn fá reglulega sendan gíróseðil frá Tómsai nokkrum Olrich. Þannig er þessu ekki farið hjá okkar nágrönnum samanber auglýsingu sem birtist í íslensku blaði s.l. sumar.

“Við erum millistórt bakarí sem vantar nokkrar hressar manneskjur sem eru tilbúnar að læra bakariðn í Danmörku. Gamalgróið starf með miklum hefðum og góða framtíðarmöguleika fyrir þann sem kann að nota hendur og góða hugsun. Það eru góðir tekjumöguleikar í þessu námi, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að skattaívilnanir eru nemum sérlega hagstæðar. Ásamt hinu verklega námi er nemendum skylt að sækja tækniskóla til þess að fá fræðilegan grunn fyrir bakarstarfið.”

Sem sagt hjá frændþjóð okkar er fólk ekki bara hvatt til náms í orði, eins og hér á landi, heldur einnig í verki.

Trúlega er loforð ríkisstjórnarinnar neyðarráðstöfun af þeirra hálfu ætluð til þess að halda stólunum. Ég hef því litla trú á að útfærslan verði skynsamleg - trúlega verða eigna- erfða- og hátekjuskattar lækkaðir. Það væri ótrúlegt ef skattalækkuninni yrði beint til þeirra sem vilja sækja sér menntun. Skammsýni þeirra sem hafa ráðið Menntamálaráðuneytinu alltof lengi er augljós þeim sem eru að sækja sér verkmenntun. Stefna Sjálfstæðisflokksins gagnvart verkmenntun einkennist af lítilsvirðingu og áhugaleysi. Þetta er þó það nám sem gæti losað flesta íslendinga sem eru í s.k. fátæktargildrum úr viðjum sínum. Skattalækkanir sem hvetja fólk til þess að sækja sér menntun er miklu vænlegri leið til þess að efla atvinnulíf og minnka atvinnuleysi heldur en skattalækkanir til gráðugra peningamanna og fyrirtækja sem í auknum mæli þurfa að fela auð sinn í skattaparadísum.