Mikill meirihluti Breta vill miklu hertari innflytjendalög
(www.framfarir.net)

Skoðanakönnun, sem gerð var í janúar s.l. af fyrirtækinu MORI Social Research, hefur leitt í ljós að mikill meirihluti Breta hefur áhyggjur af innflytjendamálum þjóðarinnar og telur mikilla úrbóta þörf svo ekki sé fastara að orði kveðið. Þrátt fyrir það hefur skoðanakönnunin einnig sýnt fram á að flestir Bretar hafa litla eða enga hugmynd um hversu alvarleg staðan sé í innflytjendamálum Bretlands og telji almennt að hún sé mun betri en raunveruleikinn hljóðar upp á.

Samkvæmt skoðanakönnuninni telja 85% Breta að bresk stjórnvöld hafi hvorki nokkra stjórn á málefnum innflytjenda né hælileitenda í Bretlandi. Ef teknir eru út þeir þátttakendur könnunarinnar sem eru ekki af evrópskum uppruna kemur í ljós að 59% þeirra er sama sinnis. Um 76% Breta telja ennfremur að bresk stjórnvöld gefi almenningi í Bretlandi viljandi ranga mynd af innflytjendamálum landsins og ennfremur að upplýsingastreymi um málaflokkinn frá stjórnvöldum til almennings sé mjög ábótavant.

Skoðanakönnunin sýnir ennfremur fram á að flestir Bretar eru engan veginn meðvitaðir um hversu mikill straumur innflytjenda og hælisleitenda er til Bretlands. Um 1/3 hluti þátttakenda sagðist ekki hafa hugmynd um hversu mikill hann væri og annar þriðjungur taldi strauminn vera margfalt minni en hann raunverulega er. Aðeins um 2% þátttakenda hafði nokkurn veginn hugmynd um hver árlegur straumur innflytjenda og hælisleitenda til Bretlands er, en hann er um 200.000 til 250.000 manns á ári.

Engu að síður taldi mikill meirihluti þátttakenda, eða 67%, að bresk innflytjendalög þyrftu að vera miklu strangari en þau eru og 13% vildu að gengið yrði svo langt að lokað yrði alfarið á innflytjendastrauminn til Bretlands. Um 12% töldu hins vegar að lögin ættu að vera óbreytt og um 4% að þau ættu að vera rýmkuð. Aðeins um 2% töldu að gefa ætti innflutninginn algerlega frjálsan.

Samkvæmt skoðanakönnuninni telja Bretar innflytjendamálin vera mikilvægasta málaflokk bresku þjóðarinnar ásamt heilbrigðismálunum, að undanskildu hugsanlegu stríði við Írak. Ennfremur sýnir könnunin að málefni innflytjenda hafa jafnt og þétt fengið síaukið vægi í hugum Breta á síðustu árum.

Að lokum má nefna að um 66%, af þeim sem tóku afstöðu í skoðanakönnuninni, lýstu yfir áhyggjur af því að bresk menning væri að líða undir lok vegna of mikils innflytjendastraums til Bretlands, um 71% þátttakenda töldu að hælisleitendur, sem kæmu í gegn um annað Evrópuland, ættu að vera sendir sjálfkrafa til baka og 75% þátttakenda höfnuðu þeirri fullyrðingu stjórnvalda að þörf væri á innflytjendum í Bretlandi til að vinna störf sem Bretar vilji ekki vinna.

Úrtak skoðanakönnunarinnar var 2.057 manns sem var dreift um allt Bretland og í samræmi við íbúauppbyggingu landsins. Meira má lesa um könnunina á heimasíðu Migration Watch UK á slóðinni www.migrationwatchuk.org. Könnunina í heild sinni má finna á heimasíðu MORI Social Research á slóðinni www.mori.com.

(Migration Watch UK 10/02/03)
Með kveðju,