Frumburðarrétturinn - réttur okkar allra.


Sjávarútvegsstefna Frjálslynda flokksins mun hleypa nýju lífi í byggðir landsins.

Stefnan mun byggja á þeirri leið að strandveiðiflotinn færist úr kvótakerfi undir sóknarkerfi. Aðskilja þarf veiðar og vinnslu og um leið stuðla að löndun alls afla á ferskfiskmarkaði. Þegar fyrningarleið er valin með innköllun veiðiheimilda þarf að tryggja að útgerðum sé áfram tryggður veiðirétturinn á 5 ára aðlögunartíma breytinga. Nauðsynleg forsenda breytinganna er að skipta fiskveiðiflotanum upp í fjóra aðgreinda útgerðarflokka. Frystitogara-, nótaveiði- og flottrollsflotinn (sem einn af fjórum útgerðarflokkum) geti verið áfram í framseljanlegu kvótakerfi innan eins útgerðarflokks. Þessi útgerðarflokkur geti ekki keypt frekari heimildir niður fyrir sig frá öðrum útgerðarflokkum innan íslenskrar landhelgi.

Ljóst er að þessi leið mun hleypa miklu lífi í byggðir landsins. Hin erfiða umræða brottkasts mun heyra sögunni til, opnað verður fyrir nýliðun í greinina og sjónarmiðum fiskvinnslu án útgerðar verður mætt með þeirri skipan að öllum afla verði landað á ferskfiskmarkaði. Jöfn tækifæri, réttlæti og frjáls samkeppni eru gildi sem loks munu líta dagsins ljós eftir myrkviði undanfarinna 20 ára.

Hvert bæjarfélag mun finna fyrir miklum breytingum á stuttum tíma. Andrúmsloftið verður þægilegra og biturð vegna óréttlátra úthlutana og mismununar fyrri ára mun hverfa. Við mun taka heilbrigð kappsemi í takt við forsjá Íslendingsins og bæði afla- og útflutningsverðmæti sjávarfangs mun stóraukast í hverri byggð fyrir sig. Óeðlilegt peningaveldi örfárra fjölskyldna mun lappast niður og við tekur frumburðarréttur allra einstaklinga í hverri byggð að nýta þjóðarauðlindina.

Það er ekki ætlan Frjálslynda flokksins með nokkru móti að hrifsa til sín veiðirétt núverandi kvótaeiganda, síður en svo. Einungis að jöfn tækifæri til veiða, frumburðarréttur allra verði tryggður og réttlæti við úthlutun fari á annan veg en raunin er í dag. Ef fólk kýs óbreytta stjórn þá kastar það um leið frá sér frumburðaréttinum sem um getur að ofan, kastar fyrir róða valmöguleika afkomenda sinna á að starfa í greininni þegar fram í sækir og um leið lofar þá einræðisstjórn sem eingöngu stendur ósvikinn vörð við hallir þeirra valdamestu og ríkustu.

Í haust hafa ungir og efnilegir einstaklingar hist í viku hverri í höfuðstöðvum Frjálslynda flokksins. Um er að ræða vel menntað fólk. Ég hef mætt á þessa á fundi og tel öruggt mál að sá hugur og kraftur ásamt þeirri hæfni sem unga fólkið færir vopnabúri Frjálslyndra muni hleypa óvæntu lífi í kosningarbaráttu vetrarins. Margir vilja halda að liðsmenn Frjálslynda flokksins séu aðallega gamalmenni eða fólk sem með einum eða öðrum hætti er minni máttar í samfélaginu. Þetta er ekki rétt þó ljúft sé til þess að hugsa að eldri borgarar og viðkvæmari einstaklingar finni fyrir þeirri velvild sem þeim sannarlega er ætluð hjá Frjálslynda flokknum. Um er að ræða fólk sem af góðri hugsjón og sterkri réttlætiskennd hefur ákveðið að bjóða Frjálslynda flokknum krafta sína. Ef þessir sömu aðilar væru í einhverju framapoti eða fíflagangi þá væri skjólið líklegast að finna annars staðar, líklegast við hvolpaleik og slefi undir þægilegum strokum bláu handarinnar. Það fylgir hugur máli hjá þeim sem hafa gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn.
Sverrir Hermannsson, sem er enn sem komið er starfandi þingmaður flokksins, hefur ákveðið að víkja fyrir ungum og kraftmiklum einstaklingum sem svo sannarlega munu láta mikið af sér kveða á næstu misserum. Í tíð Sverris hefurinn flokkurinn dafnað og styrkst. Í dag nýtur flokkurinn virðingar og aukins fylgis sem sannaði sig í síðustu borgarstjórnarkosningum en þá hlaut F-listinn rúmlega 6% fylgi.

Flokkurinn verður gerður nútímalegri. Flokkurinn er með skarpar stefnur í öllum málaflokkum. Heimasíða flokksins mun verða öflugt málgagn flokksins en þar verður að finna allt sem að starfi flokksins lýtur. Öflugir markaðsmenn munu ná til þeirra yngri, þeirra sem minna láta sig um landsmálin varða, en þessi hópur er óvenju drjúgur. Talsmenn flokksins verða vandlega valdir sem og frambjóðendur flokksins, en boðið verður fram í öllum kjördæmum.

Umfram allt verður á ferðinni ungur flokkur sem mun berjast með kjafti og klóm og byltingaranda fyrir réttlæti, jöfnum tækifærum og velferðamálum þeirra sem minnst mega sín. Markmið okkar er að auka fylgi flokksins úr 4,2% í 10% á landsvísu. Ef þessi markmið okkar verða að veruleika þá mun núverandi ríkistjórn falla. Við mun taka stjórn sem mun starfa fyrir fólkið í landinu. Öll sú hagræðing og velmegun sem núverandi ríkisstjórn stærir sig af er einungis hagræðing og velmegun fyrir stærstu fyrirtækja- og fjölskyldublokkir landsins. Við óbreytt ástand, munu milljarðar áfram streyma út úr landinu og það er hróplegt óréttlæti gagnvart þjóðinni sem á auðlindina.

Sýnum kjark og treystum nýju fólki fyrir stjórn þessa lands.

Frjálslyndi flokkurinn vill þér vel lesandi góður.

Gunnar Örlygsson
Formaður Ungra Frjálslyndra