Það er sorglegt að þurfa að hlusta á það barnalega raus í hvert skipti sem það er rætt um flokkapólitík hér á huga að Samfylkingin sé stefnulaus. Samfylkingin hefur þurft að sitja undir þeirri ásökun frá stofnun sem hefur orðið til þess að hún er nú með mun skýrari stefnu í öllum málaflokkum heldur er nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur. Ég skal renna stutt yfir hvern málaflokk hér fyrst ég hef kynnt mér stefnuna :

Sjávarútvegsmál : Veiðileyfagjald. Þar hefur Samfylkingin fyrir löngu mótað sér þá sérstöðu að vilja halda kvótakerfinu, en breyta úthlutun kvóta á þann veg að aflaheimildir séu boðnar út. Þannig sér frjáls markaður á aflaheimildum um að skapa ríkinu tekjur fyrir þessa auðlind og þau fyrirtæki sem standa sig best eiga mestan möguleika á að sækja í sig veðrið, án þess að þurfa að leigja kvóta af þeim sem fá hann gefins. Útfærslan getur verið mismunandi er lagt er til að farið verði fyrningarleið, þ.e.a.s að 5 til 10% kvótans verði innkallaður árlega og settur á uppboð.

Einkavæðing : Samfylkingin hefur verið hlynnt einkavæðingu ríkisbankanna og Landsímans, en viðraði þær hugmyndir að búta upp Landssímann og selja hann í pörtum frekar en að selja hann í heilu lagi því hlutar einsog grunnetið ættu kannski frekar heima hjá ríkinu.

Evrópumál : Sækja um aðild. Samfylkingin fór í kynningarfundi meðal flokksmanna og svo póstkosningu til að ákveða stefnu sína. Stefnan er sú að sækja um aðild, sjá hvað kemur úr aðildarviðræðum og leggja þá niðurstöðu fyrir dóm þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Efnahagsstefna : Fellur að nokkru leiti undir evrópustefnu útaf evrunni. Samfylkingin gagnrýndi mikið óábyrga efnahags og gengisstefnu Sjálfstæðisflokksins og telur að hátt gengi nú sé að drepa miðlungsstór fyrirtæki. Ekki mun sala bankanna og fyrirhuguð stóriðja bæta þar úr og hefur Samfylkingin þess vegna lagt til að við tökum upp Evruna til að reyna bæta rekstrarumhverfi allra fyrirtækja. Samfylkingin var fylgjandi lækkun skattprósentu á fyrirtæki og reyndi að vara við því að gengið væri of hátt skrifað í síðustu kosningum (að viðskiptahallinn væri tifandi tímasprengja). Því miður var ekki hlustað á Össur þá, því gengið hefur ferðast niður og upp aftur síðan síðan, sá óstöðuleiki er erfiður fyrir íslensk fyrirtæki.

Landbúnaðarstefna og Neytandastefna : Fellur að nokkru leiti undir Evrópustefnuna líka, því við inngöngu í ESB myndir verð á unnum landbúnaðarvörum lækka um 40%. Um leið myndu kjúklinga og grænmetisbændur eiga erfitt uppdráttar og þyrfti því að bregðast við því, en sauðfjárbændur myndu halda sínum ríkisstyrk.

Lýðræðismál : Samfylkingin hefur gagnrýnt samtvinningu framkvæmdar og löggjafarvald og því ætla ráðherrar samfylkingar að segja af sér þingmennsku. Einnig eru uppi hugmyndir að fækka ráðuneytum, möguleg sameining Sjávarútveg og iðnaðarráðuneytis í eitt Atvinnumálaráðuneyti og Landbúnaðar og Umhverfis í eitt ráðuneyti. Samfylkingin ætlar einnig að auka ráðherraábyrgð, þannig að það sé ljóst hver sé ábyrgur fyrir klúðrum einsog t.d. Landsímamálinu síðast.

Menntamál eru svo efst á forgangsröðun Samfylkingar. Núverandi fjársvelti á Háskóla Íslands er algjörlega óþolandi og samræmd stúdentspróf eru ágætt dæmi um ótrúlega vitleysingslega stefnu Sjálfsæðisflokksins í þessum málum. Samfylkingin heftur t.d. lagt fram frumvarp um að þeir sem klári háskólanám sitt á réttum tíma fái felld niður 30% af námslánum sínum, hagkvæmni þess hefur verið reiknuð út.

Semsagt í hnotskurn ; Framtíðarstefna sem miðast ekki við frumframleiðsluláglaunagreinar einsog álver á kostnað náttúru, heldur frekar að reyna auka fjölbreytileika atvinnulífsins með betri rekstrarskilyrðum, auka menntunarstig þjóðarinnar og matvæli á evrópuverði.

Nýir stjórnarhættir í stjórnarráðið eru nauðsynlegir og löngu tímabærir, þá er ég ekki að meina bara Ingibjörgu í stað Davíðs, heldur þessi stefna í stað stöðnunar núverandi ríkistjórnar. Það er alveg hreint fáranlegt hvernig núverandi forsætisráðherra leggur einstaka menn í atvinnulífinu í einelti og þegar vinir hans eru farnir að þurrka fingraförin sín af glösum á leynifundum útí bæ um hver megi eiga banka, þá er mér nóg boðið.

Notum okkar atkvæði til að skipa um ríkistjórn.