Ég hef undanfarið orðið var við skoðanaleysi hjá ungu fólki þegar kemur að stjórnmálum. Stór hluti framhaldsskólanema hefur t.d. enga skoðun á stórum málum eins og Kárahnjúkavirkjun. Þeim er einfaldlega ‘alveg sama’. Svo vita margir (allt of margir tel ég) lítið sem ekkert um íslensk stjórnmál. Ég held að flestir hér á Stjórnmál áhugamálinu sem eru í framhaldsskóla geta verið sammála mér: skoðanaleysi er mjög algengt meðal framhaldsskólanema.

En af hverju hefur fólk lítinn áhuga á stjórnmálum? Það veit ég ekki nákvæmlega. Kannski eru þau bara ekki í tísku, eða eru íslensk stjórnmál bara svo hundleiðinleg og rosalega óspennandi? Nei, í rauninni ekki. Þótt slagsmál séu ekki tíð á Alþingi eða annar æsingur af þeim toga, þá er samt full ástæða til þess að vita hvað sé í gangi þar.

En hvaða flokk kýs það fólk sem hefur engan áhuga á stjórnmálum? Flokkinn sem mamma og pabbi kjósa, eða flokkinn með flottasta nafnið? Eða sleppur það kannski að kjósa eða skilar auðu? Ég veit um suma, sem fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar sögðu ‘mér líður vel; kýs bara þann flokk sem er núna í meirihluta’. Svo kusu þeir bara, og það án þess að kynna sér málin betur.

Þetta finnst mér ekki vera nógu gott. Auðvitað ræður fólk hvaða flokk það kýs og hvernig það gerir upp á milli þeirra, en mér finnst samt óásættanlegt að fólk kynni sér ekki stefnuskrár o.fl. Ég hef t.d. oft heyrt jafnaldra mína segja ‘Vinstri Grænir eru bara kommar og á móti öllu’ og útiloka flokkinn bara út af einhverju sem búið er að segja svo oft: Vinstri Grænir eru á mótu öllu. En svo finnst öðrum svo svalt að vera á móti: ‘ráðherrarnir eru nautheimskir’, punktur.

Hvað er þetta með ungt fólk og áhugaleysi fyrir stjórnmálum?

kv.
miles.