Houses of the Blooded Eins og mörgum er ljóst þá verður næsta mini-mót þennan Sunnudag 24. ágúst. Það byrjar 12 og verður til ca. 20. Þetta er lýsingin að spilinu og ævintýrinu sem ég mun stjórna.

Skemmtið ykkur vel.

Um spilið
Houses of the Blooded er spunaspil sem setur spunann í spilið. Í hefðbundnu spunaspili hefur spilarinn stjórn á persónu sinni en ekki mikið meira en það. Hann getur gefið stjórnandanum ráð, hugmyndir, en hann hefur ekkert “vald” til að hafa áhrif á söguna.

Í Houses of the Blooded hefur spilarinn tækifæri til að ekki aðeins hafa áhrif á söguna, heldur móta hana. Skapa hana jafnvel.

Þetta hljómar eins og það sé stór hausverkur, eins og stjórnandinn muni eiga erfitt með að halda utanum skipulagða sögu ef einhverja sögu. Ég prófaði að stjórna ævintýrinu sem verður spilað á mótinu fyrir stuttu og það gekk mjög vel.

Því frjórra ýmindunarafl sem hópurinn hefur, því skemmtilegri verður sagan.

Ven og saga þeirra
Spilendurnir spila Ven, þjóðflokk sem var uppi fyrir fall Atlantis. Ven voru skapaðir af seiðskratta konungunum til að þjóna þeim, blæða fyrir þá og vera undirgefnir. Þegar meistarar þeirra tortýmdu sjálfum sér þá tóku Ven við sem nýji aðallinn og sköpuðu nýtt samfélag. Fyrrum meistarar þeirra skildu Shanri (sem þýðir á máli Ven “óvinurinn”), heiminn eftir í óreiðu eftir stór og mikil stríð. Enn er hægt að finna minjar og leifar eftir þessa fyrrum konunga útum allan heiminn, svo ekki sé minnst á gersemar sem innihalda ógnarkrafta.

Ven hafa verið uppí í nokkrar aldir og kunna að vinna úr járni, en eru ekki mjög nýjungargjarn þjóðflokkur. Ven eru upptekin af ástríðum, list, styrkleika og völdum. Og Völdum. Og VÖLDUM. Stjórnarfyrirkomulagið gengur út á lénsherra sem eiga landsvæði og stjórna þeim eftir eigin höfði. Á sínum tíma reis einn lénsherran, Jaymin Steele upp í valdastöðu keisara, en varð mjög fljótt snarbilaður og byrjaði styrjöld sem var löng og blóðug. Eftir þann skandal þá hefur enginn Ven fengið það mikil völd í hendurnar. Í stað þess ræður þing sem er skapað af landeigendum ráðum í landinu. Því fleiri landeignir, því fleiri atkvæði.

Um Ven
Orðið Ven þýðir “við allir” eða einfaldlega “við”. Ven á við þá sem eru aðalsmenn (einnig kallaðir: “the blooded”) og alla þá sem lúta þeim (einnig þekktir sem: “the unblooded”). Allir sem eru ekki partur af þessu “við” eru hreinlega kallaðir Orkar. Atlantisbúar, Hyberboríar, vampírur, varúlfar, sæskrýmsli og fjallarmenn; Allir eru þeir Orkar.

Ven réðu ríkjum á stuttu tímabili áður en fyrrum meistarar þeirra vöknuðu úr dvala og herjuðu fleiri blóðugar styrjaldir, áður en Atlantisborg reis til valda og sökk í gleymsku á hafsbotni. Einu heimildirnar okkar um Ven er hægt að finna úr óperum þeirra þar sem persónurnar voru ástríðufullar og hvatvísar. Sterkar en með berskjaldaðar. Traustar en svikular. Kerfið verðlaunar þessa hegðun með því sem kallast “Style Points”. Hægt er að nota þessa Style Points til að virkja öfluga krafta, en þessir punktar fást með því að gera persónuna auðsærða.

Spilið fylgir hefð óperu Ven um miklar persónur með mikinn lífskraft sem sækjast eftir of miklu og enda á því að orsaka eigin falli. Tragedíur. Ást og ástarsorg. Hefnd og blóð. Og Blóð. Og BLÓÐ! Ven skrifa Ást, Hatur, Styrk og Hefnd með stórum staf. Eins og höfundurinn orðar það sjálfur: “My game creates a sense of ven tragedy by embracing their culture and mindset like a knife through the heart. Right up to the hilt.”

Kerfið
Houses of the Blooded notar sitt eigið kerfi sem er undir áhrifum ýmsra annara kerfa (sérstaklega þá FATE og Octane kerfanna). Houses var skapað undir áhrifum D&D, en hefur verið kallað antí-D&D þar sem það verðlaunar það sem D&D verðlaunar ekki. Fötin þín gefa þér bónusa. Fjölskyldan þín gefur þér bónusa. Ástin þín gefur þér bónusa.

Þú spilar ekki nafnlausan leiguliða sem kemst upp með allt án afleiðinga, sem á enga fortíð, bara framtíð. Þú spilar aðalsmann sem hefur fortíð, sem hefur fjölskyldu, sem hefur skyldur og undirmenn og óvini. Þú berst fyrir því að eiga framtíð. Lögin eru stór hlutur af leiknum og sem aðalsborinn maður þá skiptir fjársjóður þig litlu máli og vandræði eins og skrímsli og vættir eru vandamál fyrir verði þína, ekki þig. Í staðin fyrir að lifa í heimi þar sem pólitísk völd skipta engu máli, þar sem sverðið er eini valdhafinn þá þarftu sífellt að vernda þig gegn launráðum, drápstilraunum, fjárkúgunum og vinum þínum. Því vinirnir eru þeir hættulegustu.

Á blaði spilarans eru 6 dyggðir (Bear's Strength, Elk's Cunning, Falcon's Courage, Serpent's Wisdom, Fox's Beauty og Wolf's Prowess). Allar eru lífsnauðsynlegar; Þig langar að vera með sem hæst í ÖLLUM þar sem ALLAR dyggðirnar skipta rosalega miklu máli í spilinu. Hver persóna fær eina dyggð sem er 4, tvær sem eru 3, tvær sem eru 2 og eina sem er 0. Sex dyggðir, en þú færð bara 5 þeirra og það eru engar undantekningar. Það er ALDREI hægt að hækka veikleika sinn.

-Strength segir til um líkamlegt hreysti persónunnar, hversu lengi hún getur hlaupið, hversu hátt hún hoppar, hversu fast hún lemur og hversu vel hún glímir.
-Cunning er hæfileikinn að sjá planið inní planinu inní planinu. Lævísni, lygar og launráð. Cunning er bæði til að nota og sjá óheiðarlegu hlutina.
-Courage er hreinlega hugrekki persónunnar. Í hefðbundnum spunaspilum er persónan jafn hugrökk og spilarinn gerir hana, en í Houses of the Blooded hugsa Ven fyrst og fremst um sjálfa sig. Þeir trúa ekki á líf eftir dauðann, og þar af leiðandi ef þú ert drepinn þá er allt búið. Punktur og pasta. Þegar persónan ætlar að gera EITTHVAÐ hættulegt, þá þarf hún að kasta Courage.
-Beauty segir hversu mikinn sjarma persónan er, hversu mikla sköpunargáfu og hversu vel hún nær að tengjast öðrum. ATH: Stóri og hættulegi bardagahundurinn sem ógnar þér með orðum sem láta bein forfeðra þína skelfa er svo sannarlega með hátt Beauty.
-Wisdom er hæfileikinn til að muna og læra hluti. Wisdom leyfir spilaranum að skapa heiminn eftir sínu höfði, að segja hversu mikil lönd lávarðurinn á, hver fjölskyldan hans er og hvað hann er þekktur fyrir. Wisdom ræður líka mörgu um blóð-galdra. Og það eru galdrar. Og þeir eru illir. Þér langar í galdra.
-Prowess er bardagahæfileiki, sverðfimi og stjórnar því hversu góður þú ert að heyja orrustur. Prowess leyfir þér að finna yfirburði. Að finna hvar besta varnarstaðan er í herberginu, að sjá hver kann sverðfimi og hver ekki, að vita hvaða súla heldur þakinu í raun og veru uppi.

Cunning er að sjá, Wisdom er að vita og Prowess er að finna yfirburðarstöðu.

Hver og ein persóna er síðan partur af einum af 6 aðalshúsunum. Hirðin sem hún tilheyrir hækkar viðeigandi dyggð (fjarki verður að fimmu, þristur að fjarka, osfrv.), nema ef það er veikleiki þeirra (sem verður alltaf 0).

Þegar kemur að hættu er kastað jafn mörgum sex-hliða teningum og viðeigandi dyggðin. Auka teningar fást t.d. frá viðeigandi Aspect-i (Aspect er setning eða tilvitnun sem ræður miklu um hegðun og styrkleika (auk veikleika) persónunnar). Síðan er kastað. Ef summan er 10 eða hærri, þá fæ spilarinn það sem kallast Réttindi. Réttindin leyfa spilaranum að segja til um hvort honum takist áætlunarverk sitt eða ekki. Ef hann nær ekki 10, þá hefur stjórnandinn Réttindi. Flókið? Ekki þegar maður sest niður og byrjar að spila.

En hvað gerist þegar þú ert kominn með 5 teninga? 6? 7? Þú þarft aðeins að ná 10, ekki miklu meira en það, en þú nærð því léttilega á svona mörgum teningum, þannig að þú leggur auka teningana í veð. Ef þú nærð bara 10 án veðs, þá færðu bara að segja hvort þér takist eða ekki. Nærðu að stökkva yfir þakið? Já eða nei. Nærðu að skera andstæðinginn þinn rétt yfir augnbrúnina? Já eða nei. Auka teningar gefa þér auka áhrif.

Sem dæmi þá er persónan mín að flýja undan vörðum og er að stökkva yfir þak. Stjórnandinn segir að það sé Strength kast. Ég er með 3 í dyggðinni, ég er með Aspect sem á við (Athlete) og gefur mér 3 auka teninga, og ég fæ einn auka tening því ég er að gera þetta fyrir ástina mína (ég yfirheyrði lávarðinn tala við barón um að það væri kominn tími til að herja að ástinni minni). Samtals eru þetta 7 teningar svo ég set 3 í veð. Ég kasta þeim 4 sem ég á eftir og fæ 4, 3, 4 og ás, vel rúmlega 10. Stjórnandinn spyr mig “nærðu að stökkva yfir þakið?”

Ég svara "Nei, en ég lendi á svölum sem lafði Shara á og hún ákveður að fela mig frá vörðunum.“ Hver einasta skáletruð tenging var eitt veð hjá mér, leyfði mér að segja einn hlut til viðbótar um kringumstæðurnar. Ef ég hefði ekki náð 10 hefði ég misst öll veðin mín og stjórnandinn hefði ráðið örlögum mínum. Hann hefði getað valið að ég myndi ná að stökkva yfir þakið en hefði fallið í gildru þar. Eða kannski hefði ég sloppið nánast óséður. Nánast.

Lokadæmið sem ég tek er dæmi um atburðarrás sem getur aðeins gerst í Houses of the Blooded; Hún fyrirfinnst hvergi annarstaðar, ekki í neinu öðru hefðbundnu spunaspils kerfi. Allir kannast við það að persónurnar finna lík og þurfa að kasta Investigation köstum til að stjórnandinn geti sagt þeim hvað þeir sjá og komast að. Í Houses er því snúið á kollinn. Þegar ég sem stjórnandinn segi þeim að þeir finni lík og þeir spyrja: ”Hverju komumst við að?“ Þá svara ég: ”Ég veit ekki, kastið fyrir mig Cunning.“

Þeir kasta Cunning, gera veð, og síðan segja ÞEIR mér hverju þeir komast að.

Einn spilarinn gerir 4 veð (hann er greinilega úr hirð Elksins og með 5 í Cunning + viðeigandi Aspect) og segir mér: ”Þetta er karlmaður úr hirð Elksins sem var rekinn á hol með sverði, en stungan var að aftan þannig að það hefur líklega verið gert af einhverjum sem hann treystir.“

Annar spilarinn kastar kastar síðan Wisdom og segir mér (með tveimur veðum): ”Vitað er að hann treysti ekki konu sinni, en hann átti Bjarnar ástkonu og tvo Fálka vini". Spilararnir tveir er síðan verðlaunað með Style fyrir að skapa skemmtilega atburðarrás en samt gera þetta erfitt fyrir þá. Það eru jú þrír sem koma til greina sem gætu hafað myrt þennan Elk svo ævintýrið er rétt byrjað.

Ævintýrið
Ævintýrið heitir “Roses & Thorns”. Persónurnar eru allir Barónar sem eiga sameiginlegan Count. Herra (eða lafði) þeirra skipar þeim að fara í sumarboð hjá Shara Yvari. Shara er úr hirð Refsins, en móðir hennar var Úlfur. Herra (eða lafði) persónunna vil fá Shara til að þjóna honum (eða henni).

Þetta er það eina sem spilararnir þurfa að vita. Þetta er það eina sem ég segi um aðdraganda spilsins. Spilararnir geta síðan sagt mér meira með Cunning og Wisdom hættum. Og veðum.

Já, spilararnir skapa að vissu leyti ævintýrið. En engar áhyggjur, ég veit hvað ég er að gera (seinast þegar ég gerði þetta þá var það bráðskemmtilegt fyrir alla).

Lokaorð
Houses of the Blooded gengur ss. út á aðalsmenn sem þurfa að feta varlega í valdarbaráttu sinni. Það gengur út á tragískar persónur sem lifa á stuttu tímabili friðar, á hápunkti siðmenningarinnar áður en blóðugar styrjaldir rífa landið í sundur á ný. Gleymda menningu sem aðeins fáir fornleifafræðingar hafa skoðað.

Spilið gengur út á Ást. Og Hatur. Og Hefnd. Og Hefnd. Og Hefnd!

Blóð, Blekkingar, Stál og Heiður.

Ég vonast til að sjá ÞIG þar, tímanlega með góða skapið.