Gleðilegt nýtt spunaspilaár!

Svona til að halda þessu áhugamáli örlítið gangandi, þá væri gaman ef fleiri gætu tekið sig til að gagnrýnt spunaspilabækur eða -kerfi (skrifað reviews).

Þetta þarf svo sem ekki að vera langt, en ná utan um hvað er fjallað um í tiltekinni bók, kosti og galla, smásöluverð (hvað kostar bókin í Nexus) og niðurstöðu höfundar. Það er einnig mikilvægt að vanda allan frágang, s.s. stafsetningu og málfar.

Auk þess er alltaf gaman að fá innsendar greinar, hvort svo sem þær fjalla um spunaspilabækur eða -kerfi. Bara svo lengi sem það tengist spunaspilum. :P

Annars er það að frétta úr spunaspilaheiminum, að Nexus stefnir á að halda stórmót, í ætt við gömlu Fáfnismótin. Mót þar sem allir nördar landsins (fyrir utan tölvuleikja-, brids- og skáknördana, þeir eru ógeðslegt pakk :P ) myndu sameinast. Boðið yrði upp á Warhammer, Magic, RPG osfrv., svo lengi sem það fæst í Nexus þá verður það á boðstólnum. NB!!! Þetta er enn sem komið er bara á teikniborðinu. En ef af þessu yrði, væri það frábært.

Úrval RPG bóka hefur líklega aldrei verið meira í Nexus en um þessar mundir. Helgi og þeir eiga hrós skilið fyrir nýju skápana, því þeir halda mun fleiri bækur og kerfi. Ég er svo dauðfeginn því að loksins skuli vera hægt að fá eitthvað annað en bara D20 kerfi. World of Warhammer, CoC, WoD, Shadowrun, Gurps osfrv….þetta er farið að minna aðeins meira á úrval í ‘alvöru rpg búð’! Ég hvet alla spunaspilara til að kíkja niður eftir, þó ekki væri nema til að klappa Helga á öxlina og hrósa honum fyrir framtakið.

Spunaspil.is hefur legið niðri undanfarið og eru litlar sem engar líkur á því að síðan verði endurræst. Ástæðan er einföld. Áhuginn á henni var lítill sem enginn, aðeins örfáir notendur virkir og aðeins undirritaður sem sendi inn ævintýri og þess háttar, fyrir utan nokkrar persónur. Spjallsvæðið var notað en oftar en ekki voru það sömu 5-6 einstaklingarnir sem voru að rífast sín á milli. Vonandi að grundvöllur skapist í framtíðinni fyrir nýrri slíkri síðu.

Ég vona, að okkur takist að setja meira líf í þetta áhugamál hér á huga. Það er nóg að gerast í spunaspilum hérlendis, ef maður veit hvar á að leita. :)