Heroes – Nýji smellurinn á NBC! Heroes – Nýji smellurinn á NBC!

Fyrsti þáttur nýju þáttaraðarinnar, Heroes, var sýndur þann 25. September. Hvorki meira né minna en 14.3 milljón manns horfðu á þáttinn það kveldið og hefur drama þáttur á NBC ekki fengið slíkt áhorf í yfir 5 ár.

Heroes er þáttaröð sem er ekki lík neinni annarri í sjónvarpi í dag. Þetta er afskaplega sérstakur Drama / Sci-Fi þáttur og það er augljóst að hann á ekki eftir að höfða til allra. Það segir sig sjálft að margir eiga eftir að búast við hörku spennu, hetju brögðum, illmennum og svo endar þetta allt saman með því að einhver bjargar heiminum frá klóm djöfulsins. Þetta gætu hugsanlega þeir, sem ekki hafa séð þættina, haldið. En Heroes er þó svo langt frá því að vera líkt þessu….

Í raun fjalla þættirnir um fólk, sem hélt það væri venjulegt þangað til að það hægt og rólega fór að átta sig á því að það hafði sérstaka hæfileika.

Persónulega er ég ástfanginn. Þótt ég sé almennt ekki mikið fyrir þætti sem flokkast undir “Sci-Fi” þá er það bara eitthvað sem er svo heillandi við þessa þætti. Ég hef aldrei horft á neitt í líkingu við þá enda skín frumleikinn að mörgu leiti í gegn.

Söguþráður þáttanna er afskaplega dramatískur og bíður almennt uppá takmarkaða spennu og eru þættirnir því ekki fyrir spennufíklana. Þeir sem vilja eitthvað nýtt, eitthvað til að pæla í eru þó á réttum stað.

Eins og er, vitum við lítið um aðal söguþráð og markmið þáttanna. Persónusköpun er í hámarki og er lítið um veikar myndir í persónumyndum. Enda eru karakterarnir bæði sterkir og trúverðuglegir. Þökk sé góðri frammistöðu leikhópsins og vel skrifuðu handriti.

Það sem reynist jafnvel enn skemmtilegra er að fylgjast með þessum svokölluðum “ofur kröftum” aðal persónanna. Þrátt fyrir að kraftarnir sjálfir minna einna helst á myndasögu hetjurnar þá eru útfærslunnar í þáttum á allt aðra vegu. Þær eru trúverðugar og hálf raunverulegar.

Í þáttum sjáum við m.a. unga klappstýru sem getur grætt sín eigin meiðsli sama hver þau eru, myndlistarmann sem getur málað framtíðina, einstæða móður sem hefur öfluga aðra hlið á sjálfri sér.

Heroes eru þættir sem eru þess virði að taka eftir. Enda hvet ég sem flesta til að gefa þeim séns. Það er enginn vafi á því að þeir eiga ekki eftir að höfða til allra, en þú ættir að láta reyna á þá. Þeir gætu orðið nýja Lostætið þitt.