Surface er ný þáttaröð, sem byrjaði í haust í USA. Ég veit ekki til þess að hún sé að koma hingað, ef svo er væri gaman að vita hvar og hvenær. Þessi grein hefur enga spoliera nema aðeins er fjallað um fyrsta þáttinn.

Þetta eru spennu/drama/sci-fi þættir, með góðri persónusköpun. Þættirnir fjalla um konu um þrítugt, Dr. Laura Daughtery, sem er með dr. gráðu í sjávarlífræði. Rich Connelly tryggingarsölumann og áhugakafari, og Miles Barnett unglingsstrák sem finnur eitthvað óvenjulegt egg úti á sjó og setur það í fiskabúrið heima hjá sér.

Laura er að vinna að rannsókn á djúpsjávarverum og er að rannsaka uppruna lífsins í fyrsta þættinum þegar hún verður vör við þessa óþekktu lífveru. Hún er þá marga metra ofan í sjónum, í litlum kafbát. En þegar hún kemur aftur í land, fær hún að vita það að öll gögnin hennar eru gerð upptæk og henni er ráðlagt að hætta að velta þessu fyrir sér. Eins og hver einasta forvitna manneskja fer hún að rannska málið frekar og líf hennar verður ekki það sama á eftir.
Laura er einstæð móðir með einn son, hún vann með náminu sínu á veitingarstöðum sem þjónn. Hún er ekki vön að gefast upp þó móti blási.

Rich, kafar ásamt bróðir sínum í fyrsta þættinum, en bróðir hans er ekki eins reyndur kafari. Þeir rekast á þessa veru og Rich verður heltekin af þeim á eftir.
Rich á konu og tvö börn, og þessi árátta hans á eftir að hafa áhrif á samband hans við þau.

Miles býr í ríku hverfi ásamt foreldrum og eldri systur. Systir hans er nánast fullkomin, gerir allt rétt og er í uppáhaldi foreldra sinna. Miles er ekki að standast kröfurnar eins vel og systir hans. Litla eggið í fiskabúrinu á eftir að breyta lífi hans .. hvort sem það verður til góðs eða ills á eftir að koma í ljós.

Eins og í flestum svona þáttum þá er einhver partur af bandríska ríkinu, leynideild sem vill ekki að fólk frétti af þessum verum. Gerir allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr trúverðuleika þeirra sem segja frá kynnum sínum af verunum. Á einn eða annan hátt hefur þeim tekist til þessa að halda almenningi óupplýstum um hættuna sem stafast af þessum verum. Hvers vegna þessi deild er svona áköf í að halda þessu leyndu hefur ekki komið í ljós. Hvort sem það er til að hlífa almenningi frá múgæsingi eða einhver önnur ástæða liggi að baki hefur ekki komið í ljós.

Þættirnir byrja frekar hægt. Ég mæli með að gefa þeim séns, núna eru búnir alls 12 þættir, og ég verð spenntari yfir þessum þáttum með hverri vikunni sem líður. Persónur þáttanna hafa galla og kosti sem gerir manni kleift að tengjast þeim, því annað hvort sér maður pínulítið af sjálfum sér í þeim, eða einhvern sem maður þekkir.

Þrátt fyrir að þættirnir sem komnir eru, eru aðeins 12 þá er mikið búið að koma í ljós, meira en í flestum svona spennuþáttum, og við fáum að sjá frá nokkrum hliðum málsins, hvernig vísindamaður uppgötvar þessar lífverur, hvernig venjulegur maður bregst við og unglingur. Öll eru þau með þessa áráttu af sitt hvorri ástæðunni. Frábærlega vel skrifaðir þættir sem eru búnir að halda mér spenntri núna í vetur.

Helstu leikarar eru

Lake Bell …. Dr. Laura Daughtery
Jay R. Ferguson …. Rich Connelly
Carter Jenkins …. Miles Barnett
Ian Anthony Dale …. Davis Lee - Ian vinnur fyrir ríkið og hann gerir allt til að koma í veg fyrir að sannleikurinn um þessi dýr komi til almennings
Leighton Meester …. Savannah Barnett - leikur systir Miles
Eddie Hassell …. Phil - besti vinur Miles