Þeir þramma fram og aftur á göngunum, hver skítugri á eftir öðrum, þessir skítugu Menntaskólanemar. Karlmennirnir ganga yfirleitt í buxum sem að þrengja ekki að þeim eða þeirra djásnum, en í slíkum klæðum gæti maður geymt alla kartöfluuppskeruna án þess að hún skemmdist. Þar að auki ganga þeir annaðhvort í lufsulegum peysum eða þá illa lyktandi, skítugum bolum með alls kyns heimskulegum táknum eða myndum á, svosem af fólki með andlitsmálningu og varalit. Ekki má svo gleyma að fimmti hver maður gengur um með hálsól og kallar sig Depil, en það virðist vera vinsælt meðal kvenþjóðarinnar í dag að merkja karlmanninn sinn eins og hundana sína.
En konurnar eru þaðan af verri í klæðaburði! Klæddar í ruddalega þröngar buxur til þess bæði að líkjast og skera sig úr frá karlmönnunum í senn. Þær ganga oft í þröngum bol sem virðist frekar vera hannaður til þess að kæfa þær í staðinn fyrir að klæða, og stundum klæðast þær einhverjum yfirhöfnum sem minna mann frekar á heilan dýragarð fremur en úlpu. Svo má ekki gleyma að nefna öll þessi djásn sem þau bera á sér, maður er hissa á að þau hafi ekki enn fengið nikkelofnæmi því þetta virðist eins og þetta glingur sé greipt í þær. Svo er það þetta hræðilega hár… það er eins og einhver bjáni hafi hannað hártízku Menntskælinga. Stúlkurnar líta meir út fyrir að vera broddgeltir heldur en stúlkur, hárið allt út í loftið eins og þær hafi orðið fyrir slæmu raflosti, og alltof mikill augnmaski virðist gera þær að liðnum líkum fremur en kvenmönnum. Ætli það sé ekki kominn tími til að senda þær allar með tölur í svartmálmshljómsveitir þar sem þær geta gengið með “korpspaint” og annað viðeigandi? Ekki veit ég hvað varð um þá daga að stúlkurnar gengu í hefðbundnum pilsum og blússum og strákar í buxum og peysum en svo virðist sem að þau gullaldarár hafi verið gleypt af hinum illa nútíma sem að virðist leggjast yfir okkur eins og fjárans morgunþokan, og virðist jafn ómögulegt að losna við hann eins og hina fyrrnefndu þoku.
Þegar á heildina er litið þá er klæðaburður Menntskælinga alveg hreint út sagt hræðilegur, það þarf margt að stórbæta í þessum skóla og helst skella skólabúningum í hringiðuna svo að svona sjónmengun eigi sér ekki stað.

Villi-

——–

Þess má geta að þessi grein var upprunalega skrifuð sem skilaverkefni í Isl103.