Ég get ekki hreyft mig. Nístandi sársauki fer um mig alla og ég reyni að kveinka mér, en ég kem ekki upp hljóði; hálsinn á mér brennur af sársauka þegar ég reyni að kalla á hjálp og ég get hvorki hreyft legg né lið af kvölum.
Það er allt dimmt en ég sé blóð og glerbrot á víð og dreif og rek augun í mælaborðið og stýrið en Mæja er horfin úr framsætinu.
Ég fæ sting í hjartað; framrúðan er brotin og ég get ekki teygt mig til að sjá hvar Mæja hefur endað, hvað þá farið að athuga með hana.
Helvítis síminn minn er í töskunni minni aftur í. Tár byrja að streyma niður kinnarnar á mér; af hverju gat Mæja ekki fokking spennt sig? Djöfulsins helvítis andskotans, af hverju gat ég ekki skipað henni að drullast til að nota belti? Af hverju gat hún ekki spennt sig, bara í þetta eina skipti? Helvítis djöfull.
Ég blóta og blóta í huganum og grenja og grenja og langar að öskra af öllu afli, en ég get það ekki.
Það heyrast raddir úti:
„Almáttugur minn!“
„Guð minn góður..“
„Jesús kristur..“
„Hjálpi mér allir heilagir!“
„Drottinn minn dýri!“
Ég heyri hverja guðshyllinguna á fætur annarri og það brýst út í mér reiði; af hverju í fjandanum eru þau öll að tala um guð? Af hverju eru þau að ávarpa eitthvað sem er hvort eð er drullusama um hvað gerist við okkur?
Ég heyri loksins í sírenum nálgast og einhver kemur að mér og reynir að ná sambandi við mig en ég get engu svarað. Langar ekkert að svara heldur.
Það koma einhverjir menn í búningum og eru að brasast við að ná mér út og skella mér inn í sjúkrabíl og ef ég væri ekki svona slösuð hefði ég barist um á hæl og hnakka; ekki hugsa um mig, athugið með Mæju, hvar er Mæja? Hefur hún það – hafði hún það af?
Hjartað í mér slær ört og yfir mér eru einhverjir menn og örugglega einhverjar konur að grandskoða mig og meta ástand mitt og skella á mig súrefnisgrímu og fleiru viðeigandi.
Ég veit ekki af hverju ég er svona reið við þau; veit vel að þau eiga að huga að mér en mér er alveg sama um mína áverka, fyrst ég anda enn mun ég sennilega gera það áfram.
Ég vil bara vita hvar Mæja er. Enginn er að segja mér neitt um hana. Enginn er að ávarpa mig. Ég get að vísu hvort eð er ekkert svarað á móti, en ég reiðist samt enn meir.
Allt í einu verða þau eitthvað svo fjarræn og það er eins og talið í þeim sé úr fjarska og mig fer að svima. Allt verður óskýrt og vont að horfa, svo ég loka augunum.
Ég veit ekki fyrr en ég stend allt í einu einhversstaðar úti. Engir áverkar eða sár eða marblettir á mér og ég get andað án þess að ærast af kvölum.
Ég lít í kringum mig og sé að ég stend fyrir framan gamalt timburhús sem ég kannast eitthvað við.
Það er allt í einu kominn vetur, snjóar hressilega en ég finn samt ekki fyrir kuldanum.
Ég labba að húsinu og kíki inn um stofugluggann. Það situr ung kona í sófa og er að gefa litlu barni brjóst. Hliðina á henni situr maður, sjálfsagt á tvítugsaldri eins og konan, og er að horfa á sjónvarpið, fjarrænn á svip og virðist algjörlega í eigin heimi. Á gólfinu er strákur í kringum þriggja ára aldurinn að leika sér með kubba og stelpa í kringum tólf, þrettán ára, kemur inn í stofu og er að reyna að ná sambandi við manninn sem svarar varla og starir bara tómlega á skjáinn.
Ég veit hvaða fólk þetta er. Þetta er pabbi sem situr og horfir dáleiddur, Konni bróðir á gólfinu með kubbana, Kristín systir og mamma að gefa mér. Ég er ungabarnið nýfædda.
Það er greinilega nóvember, stuttu eftir að ég fæddist.
Síðan sé ég mig stækka; á einu augnabliki er ég orðin tveggja ára með feitar kinnar og krullur og á því næsta er mamma að fara með mig á leikskólann í forljótum bleikum pollagalla.
Ég er barnið sem borðaði ennþá sand þótt allir aðrir á mínum aldri væru hættir því og pissaði stundum á mig. Ég var óstyrk og vissi ekki alltaf hvernig ég ætti að haga mér.
Næst er mamma að keyra mig og Konna í skólann og leiðir mig inn í kennslustofuna fyrsta skóladaginn minn. Hárið á mér er ljóst og axlarsítt, ég er feimin og langar ekki að vera þarna innan um alla krakkana. Mig langar heim en mamma segir að ég verði að vera þarna. Alla daga, nema um helgar og á frídögum.
Ég man ekki hvað kennarinn hét, en hún var alltof brosmild og ég fékk það á tilfinnguna að hún væri ekki alvöru. Hún væri alltaf eitthvað að þykjast. Sagðist þykja gaman að sjá okkur en var bara að plata til að okkur liði eins og við værum velkomin til hennar.
Allt í einu er ég orðin níu ára og ég sit alltaf hliðina á Tomma. Tommi er ættleiddur og við erum alltaf saman og hinir krakkarnir kalla okkur kærustupar.
Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég sé skotin í Tomma. Ég veit að margar stelpur í bekknum eru það, enda er Tommi dökkhærður og brúneygður og með rosalegt bros.
Ég held ég sé samt ekkert hrifin af Tomma. Ég hef enga löngun í að kyssa hann eða halda í höndina á honum eða neitt svoleiðis. Við hittumst bara og förum í fótbolta eða spilum tölvuleiki eða horfum á teiknimyndir saman. Tommi elskar teiknimyndir og á fleiri spólur en nokkur sem ég þekki.
Svo er ég tólf ára. Tommi er ennþá besti vinur minn og hefur stækkað, og ég líka. Ég er að fá brjóst og farin að líta fullorðnislegra út. Tommi segir stundum við mig að ég sé sæt, og það gleður mig alltaf jafn mikið. Ég er samt ekkert hrifin af honum, held ég.
Það vilja allir vera vinir hans Tomma, svo við hittum stundum fleiri í bekknum utan skóla. Mig semur ágætlega við flesta strákana í bekknum en ég á enga stelpuvini. Ég klæði mig stundum stelpulega, en ég hef enga áhuga á neinu sem stelpurnar gera og tala um. Mamma hefur áhyggjur af mér.
Ég er fjórtán ára. Ég er bráðþroska og lít út fyrir að vera miklu eldri en stelpurnar í bekknum, svo ég er farin að klæða mig í víðari og strákalegri föt til að fela það.
Tommi er búinn að eiga tvær kærustur og allir virðast vera farnir að spá í hitt kynið, nema ég.
Stelpurnar eru flestar byrjaðar að mála sig og skríkja eins oft og þær geta. Mér finnst þær asnalegar.
Tommi stelur sígarettum af pabba sínum og við prófum að reykja.
Ég er í 10. Bekk. Það er síðasta ball skólans fyrir skólaslit. Allir þurfa að vera fínir og mamma og Kristín tróðu mér í kjól og greiddu mér og máluðu. Ég er hrædd um að fólki finnist ég asnaleg.
Tommi segir að ég sé sæt og það róar mig aðeins og gleður.
Allar stelpurnar eru utan í honum um kvöldið en ég held mig hjá strákunum. Jói dregur mig og þrjá aðra á dansgólfið og það er brjálað fjör hjá okkur og ég sé að þeir eru að veita mér athygli.
Tommi kemur til okkar og fer að dansa með okkur. Stelpurnar eru ekki ánægðar og gjóa augunum reglulega að okkur en enginn hættir sér á að slást í okkar hóp.
Ég tek eftir að Tommi horfir undarlega mikið á mig. Allt í einu dregur hann mig nær sér og fer að halda utan um mig. Ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við. Síðan kyssir hann mig, fyrir framan alla.
Fyrsti kossinn minn.
Ég veit að allir standa og gapa. Ég veit ekki hvað mér á að finnast, svo ég brosi bara til hans.
Eftir ballið er hann vandræðalegur og biður mig um að gleyma þessu. Ég tek því ekki nærri mér.
Ég er 16 ára, búin að lita á mér hárið svart og við Tommi erum samferða fyrsta daginn í Menntaskóla.
Tommi er byrjaður með stelpu sem heitir Katla. Ég kann ágætlega við hana og Tommi segir að henni líki vel við mig.
Ég er farin að ganga um í aðeins stelpulegri fötum en ég gerði en er ekki enn farin að vingast við stelpur að neinu viti. Ég kvíði Menntaskólanum.
Katla á afmæli og það er party heima hjá henn. Ég fer með Tomma og rek augun í nokkra stráka sem ég þekki og fer að tala við þá.
Það er stelpa með Kötlu sem ég rek augun í. Hún er ljóshærð með gat í nefinu og frekar öðruvísi klædd heldur en flestar stelpur.
Þær Katla koma til mín og Katla gefur mér bjór og kynnir mig. Stelpan er Mæja.
Mæja er orðin full og biður mig um að koma út að reykja með sér.
Við förum út og Mæja talar og talar. Hún er í sama skóla og ég og er besta vinkona Kötlu.
Þegar ég er búin með nokkra bjóra missi ég það útúr mér að mér finnist Mæja falleg.
Mæja brosir og kyssir mig.
Mér hitnar að innan. Þetta er ekki eins og þegar Tommi kyssti mig, þetta er alvöru. Ég fæ fiðring í magann og langar ekki að sleppa vörunum hennar.

Ég er sautján ára. Katla og Tommi eru hætt saman en við Mæja erum orðnar vinkonur.
Mæja fær mig og Tomma til að prufa að reykja gras með sér. Hún er búin að prufa ýmislegt.
Mæja gatar á mér vörina og tunguna. Ég er kvíðin fyrir því hvernig mamma eigi eftir að taka því, en mamma segir ekkert. Sennilega bara af því Mæja gerði götin, og Mæja er fyrsta stelpuvinkona mín.
Konni veitir Mæju mikla athygli og það pirrar mig.
Mamma Mæju er ekki heima og við Mæja og Tommi erum að drekka heima hjá henni með fleira fólki. Það er rosalega gaman og allt í einu eru allir farnir nema ég og Tommi sem er dauður í sófanum.
Mæja kyssir mig og leiðir mig upp í herbergi. Þar klæðir hún sig úr fötunum og leggst undir sæng og bendir mér á að gera það sama.
Mæja afmeyjar mig síðan sofnum við saman. Besta nótt lífs míns.
Morgunin eftir dröslumst við Tommi heim og hún kveður mig með kossi. Um kvöldið fer ég til Tomma og segi honum að ég sé lesbía og hann faðmar mig og segir að það hafi verið kominn tími til að ég segði það upphátt.
Ég segi mömmu og pabba frá. Þau taka því hvorki illa né vel, eru frekar hissa en samt eins og þetta sé það sem þau hafi verið að bíða eftir.
Ég fer heim til Mæju og við kyssumst. Mæja segir mér að hún elski mig. Mér hefur aldrei nokkurntímann liðið jafn vel á ævinni.

Núna er ég úti. Ég stend fyrir framan bílinn, sem er í hnjaski, og sé sjúkrabílinn og lögguna og fullt fullt af fólki sem er að tala mjög hátt en ég skil ekki orð að því sem það segir.
Allt í einu tekur einhver utan um mig. Ég sný mér við og sé Mæju, skælbrosandi og alveg heila á húfi.
„Rosalega varstu lengi,“ segir hún og kyssir mig.
„Hvað meinarðu?“ Spyr ég hissa. „Af hverju er ég komin út? Af hverju eru engin sár á okkur? Hvar varst þú áðan?“
Mæja hlær af skilningsleysinu í mér.
„Ég dó.“ Hún strýkur yfir hárið á mér.
Ég veit ekkert hvað ég á að segja fyrst.
„En ég? Ég var í belti..“
Brosið af Mæju hverfur. „Ég veit, ekki ég. Þessvegna dó ég strax. Þú dóst í sjúkrabílnum.“
Ég veit ekkert hvernig ég á að bregðast við, svo ég stari bara á hana.
Mæja kyssir mig.
„Við dóum allavega saman.“ Hún tekur í höndina á mér og gengur af stað og ég fylgi á eftir.
Ég sný mér við og sé fólk í uppnámi. Ég hugsa um Tomma.