Hún átti alltaf erfitt með að sofna. Hún lág oft tímunum saman og bylti sér í myrkrinu, líkaminn dauðþreyttur en hausinn glaðvakandi og streyttist við það að halda sér vakandi.
Rúmið hennar var risastórt í samanburð við hana. Henni fannst stundum eins og hún væri týnd þegar hún var komin upp í það, undir risastóru sængina, með alla koddana og ríghélt í ljótu tuskudúkkuna sem hún svaf alltaf með.
Hún var ekkert hrædd þótt það væri kolniðamyrkur og alveg þögn, fyrir utan einstaka brak og marr.
Henni fannst gott að vita að því að það væru allir í fasta svefni, og þar með talið húsið sjálft.
Eða, næstum allir. Mamma vaknaði stundum á nóttunni og ráfaði þá eitthvað milli herbergja, reykti stundum, og grét venjulega. Það heyrðist aldrei neinn grátur, en hún fann að mamma var sorgmædd. Mamma var oft leið, og henni fannst það sárt. Þegar mamma var leið, varð hún líka leið.
Hún vissi alveg af hverju mömmu var svona illt í hjartanu – það var pabba að kenna.
Pabbi var samt góður. Hún vissi að hann hefði verið að halda framhjá mömmu mikið og særa hana, en hann var samt alltaf góður þegar kom að henni sjálfri; hann kom heim með gjafir handa henni, gaf henni nammi, fór með hana í bíó og leyfði henni að vaka frameftir þegar mamma var að vinna.
Hún og pabbi gátu talað saman endalaust og hann var svo fyndinn að hún grét oft úr hlátri. Henni leið vel hjá pabba og vissi líka að hann reyndi að gera hvað sem er til að gera hana glaða.
Hún vildi að pabbi væri líka svona við mömmu. Hann var aldrei vondur við hana þegar hún sá til, en hún heyrði í honum öskra á hana þegar hann kom fullur heim sum kvöld og hélt að hún væri sofnuð.
Mamma öskraði í fyrstu á móti, en hann lamdi hana alltaf. Núna þagði hún bara.
Eftir að pabbi hafði öskrað nægju sína, fór hann alltaf beint að sofa. Og mamma ráfaði ein um húsið og grét hljóðlega. Stundum heyrðist muldur úr henni um helvítis karlfjandan, að hún ætlaði að finna ljóshærðu, brjóstastóru viðhöldin hans og murka úr þeim lífið og hvað hún vildi óska þess að hún væri steindauð.
Hana langaði alltaf að fara fram til mömmu, en hún þorði því ekki; það var eitthvað óskiljanlegt sem ríghélt aftur að henni og herti takið því meir sem hún hugsaði um það.
Hún lág og starði út í lofið og hlustaði eftir andardrættinum í mömmu og muldrinu sem var orðið óskiljanlegt.
Allt í einu heyrði hún að mamma stóð upp og tók stefnuna á svefnherbergið hennar. Dyrnar opnuðust löturhægt og hún rétt gat greint útlínur mömmu í myrkrinu.
,,Ertu vakandi?“ Röddin hennar mömmu var rám og hún hafði greinilega verið að hágráta.
Hún þorði ekki að koma upp nokkru hljóði.
,,Ertu vakandi elskan?“
Hún andaði djúpt og jánkaði lágt, rétt svo nógu hátt til að mamma gæti heyrt.
Mamma stóð um stund í dyrunum og horfði í áttina að henni. Hún gat ekki séð hvort hún væri að horfa á sig, en hún fann augnaráðið brenna á sér.
Mamma saug upp í nefið og gekk að rúminu og lagðist upp í það hliðina á henni; mömmu var ískalt, hríðskalf og hún fann að andlitið var rennandi blautt af tárum.
Mamma lág og grét hljóðlaust.
,,Ég er að gefast upp.“
Hún fékk sting í hjartað þegar hún heyrði þessi orð. Þótt hún væri ekki gömul skyldu hún mætavel hvað mamma átti við. Hún hafði stundum velt því fyrir sér hvort að mömmu myndi einhverntímann detta það í hug, en hún hafði alltaf ýtt þeim hugsunum frá sér. Það voru ljótar hugsanir, og hún vildi ekki eitra hugan sinn.
Hún reis upp við dogg og virti mömmu sína fyrir sér. Hún var eins og lítið, varnarlaust barn.
Hvernig gat pabbi verið svona vondur við hana? Hvernig gat hann horft upp á hana svona?
Mamma var einu sinni með þykkt, sítt dökkt hár, björt augu og geislandi bros. Mamma var einu sinni mjög falleg og gekk alltaf um í fínum skyrtum og pilsum og málaði sig á hverjum degi.
Mamma var ennþá falleg, en það var ekki sjón að sjá hana. Hárið á henni var strítt og illa fléttað, hún hafði ekki málað sig í marga mánuði og fötin hennar voru gömul og drusluleg.
Og brosið sást sjaldan og ljóminn í augunum slokknaði fyrir löngu.
Hún táraðist næstum því við að sjá mömmu svona illa farna. Hana langaði að gera eitthvað fyrir hana, en hún vissi ekki hvað. Hún gæti ekki gert pabba eitthvað, hún bara gat það ekki. Pabbi var aldrei vondur við hana.
Hún vissi ekki við hverjar hann var að halda, svo það var lítið í því að gera.
Það var fátt sem hún gat gert; henni leið eins og hún væri króuð út í horn og kæmist hvorti afturábak né áfram.
Hún táraðist.
Það voru farin að heyrast smá gráthljóð frá mömmu, en svo lág að hún átti erfitt með að greina þau.
Hún fann eitthvað bresta innan í sér, lagðist niður og gerði dáldið sem hún hafði ekki gert lengi; tók utan um mömmu og faðmaði hana að sér.
,,Þetta verður allt í lagi, mamma. Þetta lagast.“
Hana langaði að mamma hætti að gráta og færi að sofa, svo hún fór að raula gamlar vögguvísur sem hún mundi eftir að mamma hafði verið vön að syngja fyrir hana þegar hún var pínulítil.
Smá saman hljóðnaði gráturinn í mömmu og hún heyrði að hún var farin að draga andan þyngra og greinilega sofnuð.
Hún sleppti samt ekki takinu. Kannski var þetta bara það sem mamma þurfti.