Það er frekar kyrrlátt úti. Svona frekar dæmigerð sumarnótt; sólin farin að setjast sem framkallar fallega, rólega birtu, skýin hálf bleik á litin og allir litir í umhverfinu dempaðir.
Þetta er rétt áður en fuglarnir byrja að syngja úr sér lungun og vekja allt hverfið og rétt eftir að seinustu næturbröltararnir koma sér heim til sín.
Ég halla útidyrunum varlega, sest á tröppurnar, kveikji mér í sígarettu og horfi yfir götuna þar sem líklegast eru allir í fastasvefni. Nema ég. Mér líður eins og ég sé alein í heiminum og finnst það frekar notaleg tilfinning ef ég á að segja eins og er. Ekkert einmannalegt, frekar frjálsleg. Eins og ég geti gert hvað sem mér dettur í hug í friði og ró, án þess að verða fyrir áreiti og fá endalausar truflanir sem fara bara í taugarnar á mér.
Ég gleymi mér um stund í einhverjum draumórakenndum hugsunum um mig aleina, þangað til ég kem auga á gamla manninn sem kemur stundum út á sama tíma og ég fæ mér að reykja.
Hann má alveg vera til með mér. Ég brosi alltaf þegar ég sé hann, veit ekki af hverju.
Gamli maðurinn virðist hafa lifað í þúsaldir; hrukkóttur, boginn í baki en alltaf skælbrosir alltaf til mín þegar hann fer út en lætur mig annars vera. Hann velur sér sama tíma og ég til þess að taka gamlan sóp sem er farin að sjá verulega á, labba út á gangstétt og sópa rykið af henni.
Mér fannst þetta voðalega skrítið fyrst og datt það bara í hug að hann væri annaðhvort elliær eða bara kolruglaður, greyið. Ég er búin að venjast því núna. Kannski getur hann ekki sofið og leiðist bara svona, eða kannski finnst honum leiðinlegt hvað gangstéttin er skítug alltaf hreint.
Hann er alltaf svo friðsæll þegar hann sópar. Hann er stirður og lúinn og á greinilega frekar erfitt með það, en hann heldur ótrauður áfram þangað til öll stéttin er orðin tandurhrein.
Hann er alltaf djúpt hugsi. Stundum held ég að hann sé að reyna að hreinsa eitthvað til í sjálfum sér áður en hann kveður fyrir fullt og allt. Hvort það er í sálinni eða hausnum veit ég ekki, hef samt trú á því að það sé hvorutveggja – allavega myndi ég gera það.
Mig langar dálítið til þess að vita hvort hann sé að reyna að hreinsa sig svo hann komist til himna, eða hvort hann er bara að þessu til þess að fá einhvern frið í sér. Ég veit ekki hvort hann sé trúaður, en ég efast samt um það. Það er eitthvað við hann sem segir mér að sé sín æðri máttarvöld.
En ég veit annars ekkert um það. Ímyndunaraflið mitt segir mér það bara.
Ég tek síðasta smókinn, drep í henni og hendi henni í öskubakkan sem liggur við dyrnar. Þegar ég stend upp, er hann akkúrat hættur að sópa; stéttin er orðin fín og hrein og hann virðist ánægður með verkið. Hann hefur sópað meira en venjulega.
Ég renni augunum eftir stéttinni og lít eitt augnablik á hann, og hann setur upp sitt blíðasta bros. Ég brosi á móti. Síðan snýst hann á hæli með erfiðleikum og gengur inn til sín.
Ég stend eitt andartak úti og fylli lungun mín að svölu sumarloftinu, síðan ýti ég varlega á dyrnar, fer inn og loka gætilega á eftir mér.
Tíminn líður og ég fer út að reykja næstu nætur. Sópurinn er horfinn frá veggnum en stéttin er samt alltaf jafn hrein.
Gamli maðurinn kemur ekki út aftur.