Það er dregið fyrir gluggann en einhvernveginn tekst ljóstíru að lauma sér inn og lýsa yfir þér í gegnum þykkt, kolniðamyrkrið.
Ég sný mér á hliðina. Þú ert löngu sofnaður og ég heyri djúpan andardrátt og veit að það er von á hrotum eftir dágóða stund.
Þú ert svo friðsæll eitthvað þarna. Ég get ekki hætt að horfa á þig; það er einhver yfirveguð ró yfir andlitinu á þér, greinilega í fastasvefni og ætlar þér ekki að vakna strax.
Þetta litla ljós lætur hárið á þér líta út fyrir að vera enn svartara en það er og gerir húðina þar af leiðandi enn fölari og mýkri og ég stenst það ekki að strjúka létt með fingurgómunum yfir andlitið á þér og láta þig kipra nefið í leiðinni.
Ég bara ligg og get ekki haft augun af þér; þú rumskar aðeins og færir þig frá hliðinni og á magann, fæturnir sparka aðeins í mig en ég finn varla fyrir því.
Það er grafarþögn í húsinu og ég heyri ekkert nema þig draga andan og fæ það í augnablik á tilfinninguna að við séum skyndilega ein í heiminum. Annaðhvort allir horfnir eða við höfum látið okkur hverfa án þess að færast um set.
Ég færi mig aðeins nær þér, tek part af sænginni sem þú ert búinn að eigna þér og breiði utan um mig og finn góðu lyktina af þér fylla vit mín þegar ég anda.
Ég veit ekki hvað ég er búin að horfa á þig lengi. Kannski nokkrar mínútur, kannski nokkra klukkutíma; ég gæti jafnvel verið búin að liggja hérna í viku án þess að taka eftir því. Ég fæ ekki nóg af því að skoða þig með augunum – þó svo hendurnar virki ágætlega líka.
Ég fer ósjálfrátt að brosa og hugsa með mér hversu fjandi heppin ég get verið.
Þú þarna, steinsofandi, elsku elsku elsku þú, og ég hliðina á þér; í sama rúmi, undir sömu sæng, með sömu kodda.
Ég vil ekki að svona taki enda.
Skyndilega rumskarðu aftur og færir þig nú yfir á hliðina, teygir fram hendurnar í áttina að mér, grípur með þeim utan um mig og dregur mig alveg upp að þér með smá erfiðismunum án þess að opna augun. Síðan andvarparðu eftir erfiðin og ferð aftur í sama andlega ástand.
Ég brosi.
Og þá get ég loksins farið að sofa.