Önnur dauðasyndin af sjö er öfund; nokkurnveginn eins og afbrýðissemi – sprottin af óöryggi og byggist á því að við getum ekki samglaðst fólki og öfundum það í þess stað, einblínum á allt það neikvæða í fari þess og reynum að draga það niður til þess að reyna að sópa yfir okkar eigin brostnu vonir, drauma og þrár.
Í því ástandi lifum við í einhverskonar biturð gagnvart restinni af heiminum; allir hafa eitthvað umfram okkur og við förum að fjarlægjast, þangað við við endum algjörlega ein á báti.
Það eru ekki margir sem sökkva sér svona djúpt ofan í öfundsýkina.
Ég var einn þeirra.
Frá því að ég var lítill fann ég alltaf brennandi öfund í samblöndu við reiði út í lífið þegar ég sá önnur börn brosa og hlæja áhyggjulaus.
Ég neyddist til að fylgjast með krökkunum í næsta húsi leika sér á daginn, bæði heima hjá sér og í skólanum; stundum fékk ég að vera með vegna þess að mamma þeirra vorkenndi mér, en það gerði allt í rauninni bara illt verra. Mér leið alltaf vel nálægt mömmu þeirra; hún sýndi mér umhyggju og ég fann alltaf vott af þessari öryggiskennd sem fylgir því að vera nálægt foreldrum sínum, en ég varð líka alltaf jafn reiður þegar ég þurfti að fara heim og sá í gegnum gluggann minn hana hugga þau og sýna ástúð, og svo kom pabbi þeirra heim og þá varð enn hamingjuríkara ástand.
Ég var fyrst alltaf dapur og hágrét mig í svefn á hverju einasta kvöldi. Mér fannst það svo ósanngjarnt að ég ætti ekki svona mömmu.
Ég bað til guðs í mörg ár um að mamma kæmi heim af spítalanum einhvern daginn og myndi hugsa um mig eins og mamman í næsta húsi hugsaði um börnin sín. Ég bað og ég vonaði það svo heitt og innilega að hún kæmi. En hún kom aldrei.
Minningarnar um mömmu áður en hún var lögð inn voru frekar óskýrar. Myndir af henni hjálpuðu mér að muna eftir því hvernig hún leit út og jóku minningarnar um góðu lyktina af henni, fallega brosið hennar og þegar ég fékk að sofa upp í hjá henni í hlýja faðminum hennar á nóttunni.
Þá var pabbi góður. Ég man eftir pabba ekki svo ósvipuðum pabbanum í næsta húsi.
Hann vann lengi, kom heim og ég hljóp um hálsinn á honum, mamma kyssti hann og hann hló og sagði sögur af því sem hafði gerst í vinnunni.
Ég veit ekki hvenær það var sem mamma veiktist. Man bara hún varð alltaf þreyttari og þreyttari, og pabbi varð sífellt áhyggjufyllri og fór að vinna minna og vera meira heima.
Einn daginn vaknaði ég og þá var enginn heima. Ég man hvað ég var skíthræddur í fyrstu, en svo hélt ég að pabbi og mamma hefði kannski bara farið í búðina og gleymt mér.
Þegar leið á daginn kom konan í næsta húsi og fór með mig yfir til sín, sagði að mamma væri orðin veik og hefði þurft að fara beint upp á spítala og pabbi með.
Ég hugsaði ekkert mikið út í það, því í mínum augum að vera veikur þá þýddi að maður fengi kvef eða eitthvað, og batnaði eftir nokkra daga.
Ég þurfti að gista hjá þeim um nóttina og fékk að sofa upp í hjá mömmunni.
Morgunin eftir kom pabbi og sótti mig. Hann var með stóra bauga og greinilega mjög þreyttur.
Ég spurði hvar mamma væri og hann sagði að hún væri veik og kæmi ekki heim strax.
Það var ekki fyrr en um kvöldið að ég fór að hágráta og bað guð um að láta mömmu batna fljótt. Svo læddist ég framm kjökrandi í myrkrið og ætlaði að fá að skríða upp í til pabba, en pabbi var eitthvað skrítinn; sat bara á rúminu með flösku og starði út um gluggann, muldrandi eitthvað óskiljanlegt.
Ég hvíslaði til hans, en fékk ekkert svar.
Þögnin þarna óbæranleg, svo ég læddist hikandi nær pabba. Hann hreyfði sig ekki, svo ég gekk alveg til hans og leit hægt í andlitið hans.
Hann var greinilega útgrátin og ég fann hvað mér var illt í hjartanu við að horfa á það.
,,Pabbi,“ hvíslaði ég, og þá sneri hann sér að mér. Svipurinn var tómur, nánast dauður.
Mér leið illa að sjá hann svona. ,,Hvenær kemur mamma?“ spurði ég.
Þá var eins og eitthvað brysti í pabba, og hann brast í grát.
Ég vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við, svo ég hágrét líka og ætlaði að taka utan um hann eins og mamma gerði við mig þegar ég fór að gráta.
Þegar ég var komin alveg upp að honum, kipptist hann við og sló mig í andlitið.
Ég hrökk til baka, greip utan um kinnina og fann sársaukan nísta um mig allan; fann tárin streyma enn hraðar niður kinnarnar á mér, en ég þorði varla að gefa frá mér hljóð.
,,Mamma þín,“ sagði pabbi, með hörkulegum svip - ,,kemur ekki aftur.“
Mér hafði aldrei liðið jafn illa á ævinni og hljóp til baka inn í herbergið mitt, upp í rúm og vafði sænginni utan um mig á meðan ég hágrét sáran og leið eins og hjartað væri að rifna úr mér, mig langaði svo mikið í mömmu mína.
Tilfinningin var ógeðsleg og ég ætlaði aldrei að sofna.
Svona leið tíminn. Þegar pabbi drakk, hélt ég mig frá honum. Í því ástandi gerði hann ekkert annað en að stara út í loftið og gráta. Hann meiddi mig ekki nema ef ég kom nálægt honum þannig.
Þegar hann var edrú, var hann eins og draugur. Hann sýndi mér enga ástúð og var orðinn nánast tilfinningalaus, nema í þau skipti sem ég minntist á mömmu; þá annaðhvort brast hann í grát eða sló mig í framann. Ég lærði fljótt að hætta að spyrja. Þessi ógeðslega söknunartilfinning var í mér alla daga, en vandist með tímanum.
Ég varð lengi dapur þegar ég hugsaði út í krakkana sem áttu mömmur og pabba, en smátt og smátt fór ég að fyllast öfund og reiði gagnvart þessari ósanngirni; ég átti alveg jafn mikið skilið og þau að eiga góða mömmu og góða pabba. Ég átti það ekkert frekar skilið að líða svona illa.
Ég veit ekki hvað ég var gamall þegar mamma dó, en ég var nógu gamall til að skilja að mamma væri veik í hjartanu og höfðinu, og að ég myndi ekki sjá hana aftur í þessu lífi.
Það var ekki jafn sárt og ég hefði búist við að það yrði þegar ég fékk að vita það. Pabbi rétt náði að stynja því út úr sér inn á milli ekkanna og ég fann sársaukan grípa um mig, en það var að vissu leyti léttir. Allar vonir um að mamma kæmi aftur heim voru að vísu horfnar, en ég þurfti þó allavega ekki að lifa í eilífðri bið eftir henni.
Upp frá því fór ég að fyllast meira en reiði gagnvart öllu; það fór að blunda í mér hatur sem óx smátt og smátt. Ég hefði verið búinn að gleyma allri væntumþykju, ef ekki væri fyrir mömmuna í næsta húsi sem kom eins framm við mig og börnin sín.
Stundum þegar ég fékk að leika mér þar, lokaði ég augunum og ímyndaði mér að ég væri heima; mamma hefði aldrei orðið veik og ég hefði kannski eignast litla systur eða bróður.
Svo opnaði ég þau og allt fauk út um gluggann þegar ég áttaði mig á að ég var bara gestur á heimili nágrannana sem vorkenndu mér fyrir að eiga ömurlegt líf.
Ég eldist og þroskaðist með sáran sting og öfund í hjartanu. Pabbi drakk og drakk, og ég einangraðist.
Það kom að því að ég var orðinn of gamall til þess að geta komið yfir að leika við krakkanna, svo ég var hættur að fara þangað nema þegar mamman kom og bauð mér að borða.
Hún var eina manneskjan í heiminum sem mér þótti vænt um.
Pabbinn þarna var líka góður við mig, en það var alltaf eitthvað fráhrindandi við hann.
Ég var alveg handviss um að undir brosinu væri hann eins og pabbi minn; dauður, drykkfelldur og skítsama um allt og alla.
Ég var farinn að horfa meira á stelpurnar í systkinahópnum, en ég vissi að enginn vildi mig svo ég gaf mér engar vonir. Ég var aumingi að upplagi.
Þegar ég var fimmtán ára, fluttu þau. Mamman sagði að henni fyndist það erfitt að skilja mig einan eftir, en þau lentu í einhverjum peningavandræðum.
Ég hafði ekki grátið árum saman, en nóttina sem þau fluttu, láku þau í lítratali – öll þau sem höfðu einhvernveginn staðnað í mér.
Ég hataði krakkana svo mikið fyrir að eiga hana sem mömmu!
Morgunin eftir vaknaði ég snemma og gekk út. Ég vissi hvert þau höfðu flutt og á rúmum þremur klukkustundum tókst mér að komast þangað fótgangandi.
Það tók ekki langan tíma að finna húsið og ég bankaði upp á.
Yngsti strákurinn, um fimm ára, kom til dyra og hleypti mérinn. Mamman var víst ennþá sofandi.
,,Hún vill aldrei vakna,“ sagði hann pirraður við mig.
Hin systkinin voru þarna og fóru að andvarpa og segja svipaða hluti um mömmu þeirra.
Ég fylltist heiftri reiði – hvernig átu þau látið svona út úr sér um hana!? Sáu þau enganveginn hvað þau áttu?
Án þess að hugsa reif ég til mín hníf úr eldhússkúffu, gekk að litla stráknum og stakk hann í brjóstið með hnífnum. Systkinin öskruðu og hlupu til að ná í foreldrana, en strákurinn kom varla upp hljóði; datt bara með hausinn á ískalt gólfið og blóðið fossaðist úr sárinu.
Ég stóð bara þarna og fann skrítinn létti læðast framm í mér.
Versta augnablik lífs míns fyrir utan það þegar mamma lenti á spítalanum, var þegar mamman kom og skelfingarsvipurinn og sorgin sem kom á hana þegar hún sá litla strákinn sinn dáinn á gólfinu og mig standa yfir honum, sekur.
Hún hágrét og hljóp að honum og öskraði á hin börnin að hringja á sjúkrabíl.
Ég stóð hjá og kom ekki upp orði. Það var svo sárt að sjá hana svona leiða. Henni átti ekki að líða illa.
,,Ég var bara svo reiður,“ stundi ég upp og fór að hágráta.
Hún leit á mig með tárin í augunum og vissi greinilega ekki hvað hún ætti að segja eða gera við mig.
Ég vissi að í öllum tilvikum hefði fólk ráðist á mig, eða a.m.k. fundist ég ógeð. En ekki hún.
Henni þótti jafn vænt um mig og henni þótti um hin börnin.
Mér fannst eins og hjartað í mér væri að springa, svo eg stakk hnífnum á kaf í brjóstið á sjálfum mér.
,,Fyrirgefðu,“ stundi ég áður en ég datt í gólfið, og allt varð svart.