Hugsaðirðu aldrei út í það hvernig þetta hefði allt orðið ef að ég hefði fengið að koma?
Ég get ekki trúað öðru.
Þú hlýtur einhverntímann að hafa dokað við, þó ekki væri nema örlitla stund, og hugsað út í það hvernig lífið þitt hefði orðið - hvernig lífið mitt hefði orðið.
Og þótt ég segi “lífið mitt“ þá hef ég varla efni á því að segja það.
Átti ég mér einhverntímann eitthvað líf?
Jú, kannski einskonar. Ekki sem manneskja samt.
Bara líf sem eitthvað óvelkomið; eitthvað sem myndi bara valda veseni og jafnvel táraflóðum, svo það var ákveðið að best væri að drepa mig bara.
Eða, drepa mig? Drepa það sem aldrei var til?
Var ég einhverntímann til?
Þótt ég hafi aldrei fengið að sjást né séð með mínum eigin augum, þá vissu allir um mig; það vissu allir af mér, mistökunum einum saman.
Það var ekki mér að kenna að þið gleymduð ykkur…
Þið? Mamma, pabbi?
Þú getur ekki ímyndað þér hversu skringilegt það er að skrifa þetta.
Hvernig hefði ég orðið sem barn og þið foreldrar?
Hugsarðu um það hvernig þetta hefði verið ef að þú hefðir ákveðið að eignast mig?
Þú værir mamma, hann pabbi. Þau þarna amma og afi, o.s.frv.
Ég held þú hafir nú samt meira, nánast eingöngu, hugsað um allt það sem ég hefði skemmt fyrir þér; skólagönguna, vinirnir hefðu getað hitt þig sjaldnar, gætir ekki farið út…
Þú ert ung og hefðir verið gerð tíu árum eldri en þú ert.
En hvað með mig?
Það er öllum sama um mig. Ég fékk aldrei að verða neitt nema einhver forljót klessa.
Ég fékk aldrei að fæðast.
Fékk aldrei að verða sætt ungabarn; fékk aldrei að brosa, hlæja, gráta, finna til, tala…
Ég fékk aldrei að leika mér að leikföngum né skríða upp í til þín á nóttunni.
Pældu í því að ég fékk aldrei að finna fyrir mannlegum tilfinningum.
Ég fékk aldrei tækifæri til þess að elska þig, né kalla þig mömmu mína.
Ég var aldrei elskaður.
Það eina sem varð að mér var það að smokkurinn hjá ykkur rifnaði og það kviknaði líf innan í þér stuttu síðan.
Eina sem ég olli voru grátur hjá þér og öskur frá “afa.“
Kannski var þetta samt rétta ákvörðunin.
Hugsanlega var þetta það eina í stöðunni, því auðvitað er lífið þitt miklu merkilegra en mitt.
Og þegar ég segi mitt, þá er ég með kaldhæðinn blæ, því auðvitað átti ég ekkert.
Það að ég hefði fengið að fæðast, vaxa og dafna sem manneskja var aldrei inn í myndinni, er það ekki? Það held ég nú.
Ég kom og enginn gat elskað mig.
Ekki nokkur einasti maður bar einhverjar hlýjar tilfinningar til míns, þó svo það væri ekki nema bara tilhugsunin um mig.
Ég man ekki vel eftir því þegar ég var drepinn, en ég man hvað það var sárt í fyrstu en dofnaði síðan og varð eiginlega bara góð tilfinning.
Ég fékk þó a.m.k. að upplifa dauðann.
Kannski fæ ég einhverntímann að hitta þig, eftir að þú deyrð?
Þá sérðu kannski hvernig ég hefði litið út sem manneskja.
Getum kannski reynt að kynnast hvor öðru.
Ef bara…