Íslenska er sagnamál. Við eigum alveg heilan helling af sögnum, sem margar hverjar lýsa sömu ‘aðgerð’ eða ‘gjörð’, bara með einhverjum örlitlum merkingarmun. Auðvelt er að benda á dæmi þessu til stuðnings, svo sem labba, ganga, rölta, trítla, skeiða, stika og tölta. Allar þessar sagnir lýsa sömu aðgerð, þe. að setja aðra löppina fram fyrir hina og endurtaka í sífellu til að komast á áfangastað.

En hvernig nýtist þessi staðreynd okkur? Jú, þetta auðveldar okkur, sem erum að dúlla við að skrifa sögur, að lýsa ákveðnum hlutum eða fólki, fyrirbærum og stöðum.

Þær sagnir sem ég taldi upp áðan, fyrir utan sögnina ganga, eru í raun sértækari útfærslur á aðgerðinni. Það er stigsmunur á því hvort að við segjum:
Hann rölti yfir völlinn. Hann labbaði yfir völlinn. Hann gekk yfir völlinn. Hann trítlaði yfir völlinn. Hann skeiðaði yfir völlinn. Hann stikaði yfir völlinn. Hann tölti yfir völlinn.

Í íslensku er líka til nokkuð af sögnum sem eru ómyndrænar. Slíkar sagnir veita okkur aðeins takmarkaðar upplýsingar. Sagnirnar koma, vera, fara og hafa eru dæmi um slíkar sagnir. Hversu góðar myndir eru þetta:

Hann kom yfir völlinn. Hann fór yfir völlinn. Hann er hinum megin við völlinn. Hann hefur völlinn.

Oft verður ekki komist hjá að nota slíkar sagnir, en ef að möguleiki er, þá er um að gera að nota sértækar sagnir. Til dæmis segja stara, fylgjast með, skoða, einblína í staðinn fyrir að nota bara sögnina horfa.

Notum sagnir á skapandi og frumlegan hátt.