Árið var 1997. Komið var fram í miðjan október, það var ekki farið að snjóa, veðrið var milt og litlaust. Ég sat með bekkjarsystrum mínum við saumavélarnar í handmenntatíma, mig minnir að við höfum verið að kynnast undrum Husqvarna vélarinnar. Það er bankað á hurðina þegar tíminn er rétt svo byrjaður. Ég sé aðstoðarskólastjórann í dyrunum og heyri nafn mitt nefnt. Hún lítur á mig og segir mér að koma með sér fram og taka dótið mitt með mér. Hjarta mitt fór að slá örar og hálfgerð hræðsla farin að gera vart við sig. Ég leyfi mér að spyrja hana hvað sé í gangi. Hún gefur ekkert upp… og mér til mikillar furðu segi ég við hana: Þú verður að segja mér hvað er í gangi ég er eiginlega farin að verða hrædd. Hún horfir undarlega á mig alveg eins og hún sé grimm en viti samt ekkert hvernig hún eigi að vera, núna vil ég halda því fram að hún hafi ekkert vitað hvað hún átti að segja. En hún svaraði á furðulegan hátt. Já, ég held að þú ættir að vera það. Ég geng á eftir henni og ég sé að stefnan er tekin í átt að skrifstofu skólastjórans. Hún vísar mér þangað inn og þar inni sat presturinn sem sá um fermingarfræðsluna í kirkjunni sem ég fermdist í. Í hugsunargangi mínum áleit ég það fljótt að þetta hlyti bara að vera eitthvað í sambandi við ferminguna en aðeins 7 mánuðir voru síðan að ég skírðst aftur fyrir guði. Þúsund hugsanir þutu í gengum huga minn á þessari stundu. Að lokum stóð aðeins ein uppúr. Ég heyrði það á röddinni, sá það á svipnum. Ég horfði útum gluggann og ég sprakk, ég veit ekki hvað ég sat þarna lengi með hökuna á hnjánum. Hann spurði mig hvort að hann ætti ekki að keyra mig heim. Ég jánkaði með heila flóðbylgju í augunum. Pabbi minn var dáinn.