Konan er fædd 1870, hana langar að yrkja ljóð og/eða skrifa sögur en þorir því ekki vegna viðhorfa samfélagsins. En konan lætur það ekki á sig fá, hún skrifar ljóð á pappír, brýtur hann saman og laumar í póstkassa ritstjóra tímarits. Á blaðið hefur hún ekki einungis skrifað ljóð heldur líka dulnefni, karlkyns, og ósk um að birta ljóðið í tímaritinu. Þegar næsta blað kemur út, fer konan spennt og kaupir eintak, á forsíðunni sér hún strax dulnefnið sitt. Hún opnar blaðið og mjög framarlega sér hún ljóðið sitt. 

Nokkrar vikur líða og á þeim tíma talar fólk mikið um þetta frábæra ljóð sem engin veit hver samdi. Sérfræðingar ræða saman og spá fyrir um hver hafi skrifað ljóðið. Aldrei kemur þó í umræðu að það hafi mögulega verið skrifað af konu, þetta er svo frábært ljóð að karlmaður hlýtur að hafa skrifað það. 

Svo kemur að því að konan skrifar meira, í þetta skipti smásögu, og setur hana ásamt dulnefninu í póstkassa ritstjórans. Næsta blað kemur út og aftur er dulnefnið og sagan fremst og fólk ræðir enn meir hver gæti hafa skrifað þetta. 

Svona líða vikurnar, konan skrifar og skrifar og það birtist í tímaritinu. Með tímanum fara ljóðin og sögurnar meira að fjalla um konur og gefið í skyn að höfundurinn sé kona. Þetta er þó aldrei nefnt beint út meðal karlmanna, þeir neita enn að opna augun fyrir því að konur gætu skrifað. Konurnar ræða þó sín á milli hvort kona, og þá hvaða kona, hafi skrifað ljóðin og sögurnar.

Loks kemur að því að hún setur sitt raunverulega nafn með skáldskapnum á bréfið til ritstjórans. Þegar næsta blað kemur út bíður hún milli vonar og ótta um hvort nafnið birtist með, eða hvort því hafi verið hent fyrst hún er kona. Hún opnar blaðið og finnur söguna sína, nafnlausa. Dulnefnið er enn notað. Konan verður pirruð á þessu, ef karlmaður hefði birt þetta væri nafnið hans undir eins birt með og honum hrósað í bak og fyrir.

Í þetta skiptið líður styttra þangað til hún fer með bréf til ritstjórans, hún skrifar nafnið sitt með stórum stöfum fyrir neðan ljóðið og biður vinsamlegast um að hafa það með. Þegar blaðið kemur næst út skoðar hún það, en nei, nafnið hennar er enn þá ekki birt með. Tíminn líður, hún setur nafnið sitt og skýra ósk um að hafa það undir með hverju einasta bréfi en ekkert breytist. Á endanum hótar hún því að láta þau ekki hafa fleiri ljóð eða sögur, og þar sem það er það merkilegasta í blaðinu hverju sinni, hefur það áhrif. Loksins birtist upphafsstafur hennar og sagt að bráðum muni blaðið afhjúpa hver samdi þetta allt. Lesendur verða spenntir og ekki er rætt um annað. Daginn fyrir afhjúpun fær konan heimsókn. Tveir skuggalegir náungar banka uppá og biðja um að fá að stíga inn fyrir. Hún getur ekki annað en hleypt þeim inn og þegar þeir loka dyrunum tekur annar þeirra upp skammbyssu, beinir henni að konunni og segir rólega: Komdu með okkur út í bíl eða þú munt hafa verra af. Hún þorir ekki öðru en að hlýða og fer út í bíl með þeim.

Daginn eftir er nafn höfundarins birt, bróðir konunar. Ekki er minnst einu orði á hana, hann segist hafa samið fullt en sé nú hættur, sköpunarflæðið sé runnið af honum. Eftir þennan dag heyrir engin né sér til konunnar aftur.