Það var eitt sunnudagssíðdegi sem ég ákvað að taka því rólega og láta renna í bað og leyfa kvenlegu hliðinni í mér að njóta sín. Ég lét renna í baðið og fækkaði óspart fötum og var tilbúinn að skella mér ofan í þegar ég steig á bleytu og rann og skall með hausinn á klósettinu. Ég reikna með að rúmur klukkutími hafi liðið þangað til ég vaknaði við dyrabjölluna. Ég lá allsnakinn í vatni sem hafði flætt uppúr baðkarinu. Bjallan hringdi aftur svo ég stóð upp verulega vankaður og enn hálfrótaður og spáði ekkert í því að ég var berrassaður. Þegar ég opnaði hurðina stóð þar hún Gunnhildur, áttræða konan af fyrstu hæð. Í fyrstu opnaði ég hurðina aðeins og kíkti út og reyndi að átta mig á aðstæðunum, allt er einhvað svo framandi og skrýtið þegar maður er hálfrotaður. Gunnhildur brosti og spurði hvort ég ætti nokkur egg því hún væri að baka. Nú þar sem ég var verulega vankaður brosti ég út að eyrum, sveiflaði hurðinni svo hún galopnaðist og sagði ,,Að sjálfsögðu get ég fest þig uppá vegg og komið með klaka”. Henni Gunnhildi brá talsvert við þetta enda ekki oft sem rennblautir berrassaðir menn bjóðast til að festa hana uppá vegg. Hún stamaði einhvað um ofbeldi og tók svo til fótanna. Ég hristi hausinn og lokaði hurðinni og gekk nokkur skref inn. Það var einsog sýru væri skvett framan í mig og ég rankaði strax við mig og fattaði hvað hafði skeð. Ég rauk í og greip bol og tróð mér í bolinn öfugan og skellti mér í buxur og rauk á eftir konunni. Gunnar, maðurinn á hæðinni fyrir neðan mig stoppaði og vildi endilega bjóða mér inn til hans í kaffi. Án þess að skýra neitt sagðist ég vera að elta konu og að ég þurfti að fá að koma seinna. Gunnar brosti, sagðist skilja hvað ég ætti við og blikkaði mig óhugnalega. Loks kom ég að íbúðinni hennar Gunnhildar. Ég barði að dyrum og sagði þetta allt vera stóran misskilning og að ég hafi ekki verið með fullu viti áðan og ætlaði svo sannarlega ekki að festa hana uppá vegg og gefa henni klaka. Kona sem var að labba framhjá tók í hendina á krakkanum sínum og flýtti sér óhemju mikið upp stigann. Gunnhildur opnaði hurðina aðeins og stakk hausnum út og sagði mér að fara og að hún hafði hringt á lögregluna. Ég sá einnig að hún hélt á steikarhníf. Svo skellti hún hurðinni aftur.Ég bankaði aftur og sagði algjöran óþarfa að blanda lögreglunni í þennan misskilning en komst svo ekki lengra því ég heyrði sírenuvæl koma að utan. Þrír lögreglumenn æddu inn, einn þeirra eldri en hinir, og sögðu mér að leggjast í gólfið. Meðan ég lá á gólfinu með tvö unga lögregluþjóna ofan á mér reyndi ég að útskýra hvað hafði skeð. Ég sagðist ekki hafa verið með fullu viti, þá spurði einn lögregluþjóninn hvort ég væri að gefa í skyn að ég væri hálfviti. Gunnhildur opnaði hurðina og sagði lögregluþjónunum að koma með mig inn. Þar skipaði hún okkur að setjast niður og fá köku og kaffi. Ég ætlaði að fara að grínast með að hún væri afar stórhjartað fórnarlamb en sleppti því svo. Ég náði að útskýra allt með hvernig ég rann á baðinu og fór vankaður til dyra. Einn yngri lögregluþjóninn hló sig máttlausan og hóf svo að því er virtist að senda sms. Mig grunaði hann um að vera senda sögu mína til náinna vina. Eftir klukkutíma eða svo fóru lögregluþjónarnir leið sína og ég labbaði upp tíl mín aðeins til að fatta að ég var læstur úti.