Ég leit í spegilinn og skoðaði sjálfsmyndina mína. Ég tók blað og blýant og teiknaði það sem ég sá í speglinum. Ég vandaði mig við að mála mig með akrýl litum. Ég málaði brúna hárið sem náði niður fyrir axlir og dökkbrúnu skásettu augun. Síðan málaði ég krúttlega nefið og fallega munnsvipinn hennar mömmu sem ég hafði erft. Auk þess málaði ég mig í fallegustu flík sem ég hafði séð þótt ég ætti hana ekki til í fataskápnum mínum. Ég var ekkert að teikna eyru því að ég kunni það ekki og vildi ekki hætta á að skemma það ágæta sem komið var. Þegar ég hafði lokið við málverkið sá ég eitthvað sem ég hafði aldrei tekið eftir áður. Samsetning af foreldrum mínum er falleg. Pabbi plús mamma sama sem ég. Mér fannst ég vera prinsessa svo ég málaði kórónu á höfuðið mitt. Eftir þetta lít ég á allar stelpur sem prinsessur því hver og ein hefur sína tegund af fegurð þótt hún viti ekki af því. Persónulega finnst mér þessar upplýsingar um útlitið mitt ekki skipta máli heldur persónuleikinn minn. En hvernig get ég lýst því sem býr innra með mér? Eina leiðin fyrir mig til að komast að því hver ég er er að skrifa það niður á blað og umbreyta lífi mínu í fast form. Lengsta ferðalagið sem þú tekur í lífi þínu er leiðin til þess að finna út hver þú ert. Hver ég er byggist af hluta til af fortíð minni. Þegar ég hugsa út í það þá er maður örugglega aldrei sama manneskjan eftir nokkra stund því við erum alltaf að breytast.