Ég elska laugardagskvöld.


Hvíta blaðið fyrir framan mig er að gera mig geðveikan. Þau eiga það til, hvítu blöðin. Það liggur þarna í ritvélinni eins og einhver helvítis hampreykjandi kassadrengur í Bónus og gerir ekki neitt til að bæta heiminn. En ég er rithöfundurinn. Það er víst mitt starf að fylla þetta blað út og blaðið hefur ekkert um það að segja; það er eins og það hafi skellt af sér allri ábyrgð og auðvitað varð ég fyrir henni. Við erum eins og hampreykjandi kassadrengurinn, sem blaðið er, og verslunarstjórinn, ég.

En rétt eins og verslunarstjórinn þá hef ég lítil sem engin alvöru völd yfir hampreykjandi kassadrengnum mínum. Hann getur reyndar rekið hann; þar liggur munurinn á okkur. Ég get ekki tekið upp á því núna að reka blaðið mitt. Þá hefði ég ekkert að gera. En svo gæti hampreykjandi kassadrengurinn líka verið sonur verslunarstjórans – þá væri erfitt fyrir verslunarstjórann að reka hann. Honum þætti vænt um hann og gæti því ekki rekið hann. Ég meina, ég er ekki að segja að blaðið sé sonur minn. En mér þykir samt pínu vænt um það, ha?
Litla hampreykjandi kassadrenginn minn.