Skepnan leit í kringum sig og gaf frá sér ógurlegt hljóð. Það er rétt, hugsaði hún, ég er hræðileg skepna sem aðrir hræðast.

Hún leit aftur í kringum sig, í þetta sinn ekki til að skapa hræðslu heldur til að reyna að sjá hvað væri þarna. Til vinstri var aðeins dimmt og ekkert að sjá, svo hún leit til hægri. Þar var allt dimmt og ekkert að sjá svo hún sneri sér í hring til að sjá hvort eitthvað merkilegt væri að finna á þessum fremur ómerkilega stað, en dimman virtist vera fullkomlega ánægð með yfirráð sín. Skepnan dæsti ógurlega. Það virtist engin spenna vera að leita hennar hér í kvöld.

Frábært, ekki einu sinni neinn til að hræðast mitt hræðilega sjálf. En hræðilegt.

Hún vafraði um þartil hún heyrði skyndilegt þrusk hægra megin við sig. Hún snerist strax á hæli, sem hún reyndar hafði ekki yfir að ráða, og réðst á það sem var þarna.
Hræðileg hljóð heyrðust á meðan verurnar tvær börðust með öllu sínu afli gegn hvor annarri. Skepnan hafði yfirhöndina, auðvitað er þessi vera ekkert á við mig, og reyndi nú með öllu sínu afli að kyrkja hina veruna.

Bíddu nú við, hugsaði hún, hvar hafa angistarhróp hennar verið allantímann?

Þessi hugsun styrkti skepnuna í illsku sinni. Hún hamaðist meira með öllum sínum ógurlegu hljóðum, enda ógurlega ógurleg skepna sem ég er, en veran virtist ekki ætla að gefa henni þá ánægju að ópa.

Ég er að kyrkja þig! Þú átt að gefa frá þér hljóð því til sönnunar, sjáðu, sjáðu! Og veran gaf frá sér, reyndar ógurleg, kyrkingarhljóð svo veran vissi hvað af henni væri búist.

Þetta þýðir ekkert, úff, úff, ég gefst upp.

Skepnan rölti um niðurlút það sem eftir lifði nætur, hrædd um að hún væri ekki jafnógurleg lengur. Brátt birti af degi og skepnan sá í ljósi dags hví ekkert hafði gengið um nóttina.

Ég er ekkert hræðileg. Ég er aum og lítil kind sem barðist við stól.