Mér hefur alltaf verið sagt að ég líkist langömmu minni. Hún er ekki með okkur lengur, en jafnvel ég sé eitthvað sameiginlegt með myndum af henni og mér. Ég er með sömu brúnu augun og hún, sömu háu kinnbeinin og sama andlitslagið. Mér skilst samt að hún hafi verið hræðileg kona. Sem unglingur var hún ofdekruð og snobbuð, kunni að vefja karlmönnum um fingur sér. Hún hataði móður sína, því hún sá í gegnum hana, en elskaði pabba sinn , sem lét allt undan henni. Þetta hefur amma sagt mér, langamma sagði henni þetta allt til að „kenna henni á lífið“.
Svo varð langamma ólétt. Hún var neydd til að flytja út og giftast manninum sem elskaði hana og hélt að hún elskaði hann á móti. Hún elskaði hann aldrei. Hann var bara einn af mörgum sem veittu henni unað og gáfu gjafir. Nú var hún hinsvegar útskúfuð, ólétt, atvinnulaus og verst af öllu: Gift. Pabbi hennar neitaði nú að láta allt undan henni, hún skyldi sjá um sig sjálf. Móðir hennar hjálpaði henni aðeins, en hélt aftur af sér með að láta hana fá peninga.
Þau rétt lifðu af fram að barnsburði og þegar barnið var fætt fékk langamma endanlega nóg. Hún vildi ekkert með barnið hafa, gaf því ekki að borða, sinnti því ekki neitt og lét það liggja aleitt allan daginn meðan langafi vann. Það endaði með vöggudauða. Hún varð ólétt á ný.
Þegar seinna barnið fæddist tók langafisig á og var heima með barnið meðan langamma vann. Þetta barn var amma. Langafi hugsaði vel um hana og leyfði langömmu ekki að koma nálægt henni. Eftir langa og stranga æfi stökk langamma í ánna og kom aldrei uppúr aftur.
Langafa var ekki létt, en það var sem þungum byrðum væri lyft af herðum hans. Hann hélt áfram að sjá um ömmu, sem nú var orðin 17 ára og farin að hitta strák sem seinna varð afi minn. Svo dó langafi úr hjartaáfalli og amma þurfti að sjá um sig sjálf. Hún giftist afa og þau fluttu úr sveitinni í borgina. Afi fékk góða vinnu sem smiður og þau áttu nóg af peningum. Stuttu síðar kom lítill drengur í heiminn og alls ekki löngu seinna kom annar. Sá yngri er pabbi minn.
Lífið var auðvelt fyrir ömmu og afa. Hún var alin upp af pabba sínum svo að hún kunni öll karlmannsverk síns tíma og gat létt mikið undir afa. Þegar pabbi minn var orðinn 22 ára dó afi í slysi og tók hinn son sinn með. Nú voru amma og pabbi alein. Hann kynntist konu, nokkrum árum eldri en hann, og þau fóru að búa. Hann eignaðist með henni 2 börn, eina stelpu og einn strák. Þau skildu nokkru seinna og börnin fóru með henni og pabbi veit ekki enn hvar þau eru niðurkomin.
Eitt kvöldið var pabbi að vinna frameftir í fyrirtæki afa og sá hvar skúringarstelpan var að ganga frá. Hún var gullfalleg, blá augu, ljóst hár og grannan líkamsvöxt. Hún var aðeins yngri en pabbi, en hann varð ástfanginn á svipstundu. Seinna tókust með þeim ástir, þau giftu sig og eignuðust 3 börn. Fyrst kom bróðir minn, síðan systir og að lokum ég.