Hann lagði töskuna hennar frá sér á þungt marmaraborð.
,,Þú færð herbergið þarna’’ hann benti á kósý, lítið herbergi við hliðina á baðherberginu.
Hún greip töskuna sína og gekk inn í herbergið. Glugginn var hringlaga og hátt uppi. Sólin lýsti upp margra mánaða ryk og minnti hana á herbergið sitt í gamla húsinu.
,,Ég gleymdi alveg að spurja þig. Hvað heitirðu?’’ spurði hún og sneri sér að honum þar sem hann fylgdist með henni skoða eldgamla, gráa koju.
,,Kobbi’’ svaraði hann stuttlega.
,,Kobbi?’’ apaði hún upp eftir honum.
,,Ja, reyndar heiti ég Jakob en ekki búast við því að ég svari ef þú kallar mig það’’ hann brosti kíminn en hún kinkaði bara kolli.
,,Ég heiti Valbrá Lind’’ sagði Valbrá og opnaði töskuna. Það var ekki mikið í henni. Eitt sokkapar, nærföt, aukaföt og afmælisgjöfin frá Krumma.
Hún tók upp gjöfina og reif hægt upp skærrauðan pappírinn.
Þetta var græna bókin með sólinni sem Krummi hafði verið að fletta í klukkutímunum saman.
Án þess að hika opnaði hún bókina fremst. Klunnalega hafði verið skrifað að bókin innihéldi allt sem maður þyrfti að vita um vampírur.
Þegar Kobbi leit í bókina forvitnislega skellti hún henni aftur.
,,Áttu eitthvað að borða?’’ spurði hún til að rjúfa þögnina.
,,Ja, ætli það ekki. Vinur minn kemur í mat, hann ætlar að hjálpa mér að leita að týndum hesti á eftir. Kannski þú getir komið með? Þú ert svo ung og hraust! Hvað ertu annars gömul?’’
,,Fimmtán í dag’’
,,Áttu afmæli!?’’ hrópaði hann ,,þá verð ég að gefa þér afmælisgjöfina strax. Mig minnti að þú ættir afmæli í ágúst!’’
,,Það er ágúst’’
,,Ó, ég verð að fara að fá mér dagatal! Komdu með mér hérna út’’ hann leiddi hana út og inn í lítið hesthús. Ljósbrúnn hestur stóð í miðju húsinu og át hey.
,,Fínasti hestur. Undan mikilli verðlaunahryssu sem ég seldi nýlega á dágóðan slatta. Hann er orðin eins vetra svo það er byrjað að temja hann’’
Valbrá gekk að hestinum sem reisti hausinn og horfði varkár á hana. Hann var uppspenntur og tilbúinn að hlaupa burt við of snögga hreyfingu.
,,Ekki klappa honum strax. Leyfum honum að venjast þér fyrst. Þú ferð bara með heyið til hans á morgun og smám saman fer hann að sætta sig við þig. Hann er dálítið varkárari en aðrir hestar sem ég hef verið með’’ masaði Kobbi. Hann virtist ætla að halda áfram en maður stóð í dyragættinni.
,,Ætluðum við ekki að borða saman….hver er þetta?’’ maðurinn gekk inn í hlöðuna og horfði rannsakandi á Valbrá.
,,Þetta er dóttir bróður míns, sem ég sagði þér frá. Bróðir minn er látinn og móðir hennar var lögð inn svo hún mun búa hjá mér þar til hún verður lögráða’’
Þeir héldu áfram að tala en Valbrá nennti ekki að hlusta. Hún tók í höndina á manninum sem hét víst Þór.
Rosalega var erfitt að ímynda sér að hún mundi búa hjá Kobba næstu þrjú árin eða meira. Hann var skrýtinn maður. Þrátt fyrir að vera í kringum fimmtugt var hann grannur og í góðu formi. Svartar, þröngar taubuxur huldu grannar lappirnar og yfir það var hann í köflóttri skyrtu úr grófu efni. Hárið…andlitið og jafnvel röddin minnti hana svo mjög á pabba sinn. Hrollurinn læsti sig í bakið á henni.
,,Valbrá? Við erum að fara inn að borða’’ Kobbi gekk af stað að húsinu með Þór blaðrandi við hliðina á sér en Valbrá elti þá ekki alveg strax. Henni svimaði skringilega og leit að ljósbrúna hestinum í miðju hesthússins.
Ferlega var hann fallegur svona í kvöldsólinni, feldurinn virtist loga.
Svo tók hún á rás á eftir körlunum tveimur sem skelltu sér á lær og hlógu hátt. Þeir stóðu inni í eldhúsi og Kobbi var að taka kjúklingalæri upp úr ljótum potti. Hann rétti Valbrá eitt á diski og hún skammtaði sér kartöflur og settist svo hjá þeim á harðan trébekk sem var nelgdur við vegginn.
,,Segðu okkur aðeins frá þér, Valbrá! Ég hef ekkert heyrt í bróður mínum síðan hann hringdi í mig frá fæðingastofunni til að segja mér að það væri stelpa’’ Kobbi hló þessum smitandi hlátri og Þór tók undir með tröllahlátrinum sínum.
,,Systir mömmu flutti úr bænum þegar ég var fimm ára…’’ byrjaði hún hikandi ,,hún gaf mér gjöf, litla mús sem ég á reyndar ennþá og….’’
,,Mús?’’ æpti Kobbi ,,kötturinn á ekki eftir að vera lengi að ganga frá henni skal ég segja þér!’’
Valbrá fann kvíðahnútinn í maganum og greip ósjálfrátt um músina í vasanum. Hún tók hana upp og horfði á hana. Litla trýnið sem vanalega þefaði forvitnislega út í loftið var alveg kyrrt. Litlu klærnar sem héldu venjulega dauðahaldi í fingur eiganda síns héngu bara líflaust niður og skottið sem var alltaf uppspennt og sífellt á iði eins og ánamaðkur, lafði bara hreyfingarlaust niður frá afturendanum.
,,Mér sýnist kötturinn ekki þurfa að ganga frá henni’’ sagði hún lágt.
,,Jahérna, áttirðu hana í heil tíu ár, barn?’’ spurði Þór og starði á dauða músina í lófa hennar.
,,Já. Hún var erfðarbreytt og átti að geta þolað allskyns tilraunir á sér. Getað dáið og lifnað við aftur og aftur. En hún mun ekki lifna við aftur, sýnist mér. Hún hefur samt þolað margt og ég mun sakna hennar’’ svo leit Valbrá sviplaust á Kobba ,,áttu ruslafötu?’’

Hún gretti sig þegar þau komu að enn einni mýrinni. Þetta var farið að verða leiðinlegt.
,,Þorna þessar mýrar ekkert upp á sumrin?’’ spurði hún þegar hún var komin svo djúpt að vatnið náði upp að mitti.
,,Jú, þær minnka um helming’’ Kobbi potaði prikinu í botninn fyrir framan sig.
Helming!
,,Heldurðu virkilega að þessi frábæri hestur þinn hafi vaðið þessa mýri?’’ spurði Þór og glotti þrátt fyrir aðstöðuna.
,,Já, þessvegna er hann svona frábær! Hann er til í allt!’’
Valbrá leit á Þór og þau hlógu glaðlega. Þór var stórbeinóttur og frekar bústinn. Nefið var breitt og tröllslegt og hárið, hláturinn og hæðin létu hann virðast vera raunverulegt tröll. En hann var ekkert nema vingjarnlegur og fyndinn bangsi í stórum líkama. Henni fannst hún hafa þekkt þá báða alla ævi þrátt fyrir að hafa hitt þá í fyrsta skipti í dag.
Hún steig fegin upp á bakkann.
,,Skrýtið. Pabbi nefndi aldrei að hann ætti bróður’’ sagði hún og skafaði mestu drulluna í burtu.
,,Nei, við vorum aldrei góðir vinir og þar að auki var hann fluttur að heiman þegar ég fæddist’’
,,Bíddu nú við…hvað ertu eiginlega gamall?’’ spurði Valbrá.
,,Ég er víst að nálgast fertugt. Ætli ég sé ekki þrjátíu og átta ára’’ hann kallaði nafn hestsins einu sinni eins hátt og hann gat.
Hún leit í átt að greniskóginum þegar þögnin hafði varað í smástund.
,,Hefur hann ekki bara farið inn í skóginn?’’ spurði hún. Þeir litu báðir í áttina þangað.
,,Ef svo er skaltu bara gleyma honum, Kobbi’’ sagði Þór.
,,Nei, hversvegna að leita hér á túninu? Það er ekkki erfitt að sjá að hér er enginn hestur. Förum inn í skóginn! Það liggur stígur þangað sýnist mér’’ hún gekk í áttina þangað en Kobbi greip fast um handlegginn á henni.
,,Þangað fer enginn heilvita maður!’’ sagði hann hvasst. Hún leit á hönd hans. Um úlnliðinn var fallegt silfurarmband.

-