Ótrúlegt hve róandi það er að horfa á snjóinn og hve fallega heimurinn lýtur út þegar hann fellur hægt og rólega til jarðar. Þú finnur innra með þér frið og ró sem í þessum brjálaða heimi þú finnur sjaldan. Þú brosir þegar snjókornin falla létt á andlit þitt og bráðna, svo mörg að eftir nokkra stund er allur þinn fatnaður hvítur. Ó hve yndislegur heimurinn er. Það virðist allt svo hljótt rétt eins og það sé enginn annar til í heiminum nema þú, gangandi í hvítu draumalandi. Þú stenst ekki freistinguna að ganga út í djúpan og ósnertan snjóinn, á ómerktu landsvæði, þar sem enginn hefur áður stigið niður fæti. Þú leyfir þér að falla niður í kaldann snjóinn sem virðist samt sem áður svo hlýr. Þar sem þú liggur þarna fellur þú til barnæskunnar og gerir snjóengil og heldur svo áfram að liggja þarna, langar ekki að standa nokkurn tímann upp aftur. Bara að vera umlukin þessum róandi hvíta heimi þar sem snjórinn heldur þér sem fanga og þú neyðist til að loka augunum vegna fallandi snjókornanna. Það eina sem þú vilt gera er að liggja þarna. Án þess að skeyta um lífið, dauðan eða tímann sjálfan. Bara liggja þarna.

En allt í einu vaknar þú af þessum raunveruleika hversdagslífsins, drífur þig á fætur og dustar snjóinn af þér meðan þú grefur í vasann eftir strætókortinu, þar sem þú sérð gulan strætóinn nálgast. Þú veifar strætónum til að vera viss um að hann stoppi og með einu loka augnatilliti lítur þú á guðdómlegan snjóinn þar sem dyr strætósins lokast fyrir aftan þig. Nú vissir þú hvernig Adam og Evu leið.
kveðja Ameza