Ritsmiðja á Bókasafni Kópavogs



Bókasafn Kópavogs og ritlistarvefurinn Rithringur.is hafa ákveðið að taka höndum saman um rekstur ritsmiðju á Bókasafni Kópavogs. Öllum er heimil endurgjaldslaus þátttaka.

Fundir verða fyrsta og þriðja fimmtudag í mánuði frá kl. 18-20 og verða þeir með nokkuð fjölbreyttu sniði. Auk þess sem meðlimir smiðjunnar munu vinna að eigin verkefnum munu þeir halda hringborðsumræður um ákveðna þætti ritlistarinnar, boðið verður upp á æfingar, góðir gestir munu líta við og þátttakendur munu nokkrum sinnum á ári deila verkum sínum hver með öðrum til umræðna. Starfsemi hópsins verður talsvert mótuð af þeim sem mynda hann.

Fyrsti fundurinn verður fimmtudaginn 17. janúar n.k. Hann verður með dálítið öðru sniði en þeir sem á eftir koma, því Jón Yngvi Jóhannsson mun halda fyrirlestur kl. 17:15 um jólabókaflóðið og að fyrirlestrinum loknum – um kl. 18:30 mun hin eiginlega ritsmiðja hefjast þar sem sniðið á komandi fundum verður rætt.

Umsjónarmaður ritsmiðjunnar er Arndís Þórarinsdóttir deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs og stjórnandi á Rithringnum.