Ég vissi það ekki þennan morgun er ég vaknaði í rúminu mínu árla morguns. Ég vissi ekki að þessa dags myndi ég minnast það sem ég ætti eftir ólifað.
Dagurinn byrjaði líka ósköp venjulega. Ég vaknaði í sömu rúmfötunum, sömu náttfötunum og sama líkamanum eins og alla aðra morgna. Ég gekk rólega inn í eldhús, borðaði morgunkornið mitt og tók daglegu matskeiðina af lýsi. Það var laugardagurinn tuttuguasti og annar júní og morgunsólin skein í gegnum eldhúsgluggann minn. Klukkan var níu. Ég leit út um gluggan, reyndi að sjá í gegnum sólina leikvöllinn sem var staðsettur rétt fyrir neðan svalirnar mínar.
Ég var nítján ára gömul og bjó ein í Fellismúlanum á þriðju hæð. Ég hafði lokið menntaskólanum þetta vor og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við líf mitt núna þegar ég var komin með stúdentspróf í eina hendina og fullkomið frelsi í hina. Ég hafði aldrei verið mikið félagsvera og átti þar af leiðandi ekkert allt of mikið af vinum. Einkabarn, faðirinn alkóhólisti og móðirin dáin. Ég vann á pítsustað. Ég minnist þess núna að ég spurði sjálfan mig á hverjum einasta degi þessa brennandi spurningu. Hvað í anskotanum ertu að gera við líf þitt ? Málið var að ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að lifa lífinu. Ég hafði aldrei upplifað venjulegt líf svo að ég hafði engar væntingar á öðru heldur en einhverju dapurlegu framhaldi. Ég rétt sá glitta í leikvöllinn þarna niðri. Í dögg næturinnar endurspegluðust geislar sólarinnar og mynduðu regnboga sem skein í augu mín. Á því andartaki fékk ég hugdettu. Af hverju ekki ? Yrði það ekki gaman ?
Ég vafraði í vímu hugljómunarinnar í átt að svaladyrunum. Opnaði svalirnar og klifraði upp á handriðið. Bara eitt skref. Þrír, tveir, einn.
Eitt skínandi augnablik og ég flaug upp í sólina. Þar næst hvarf sólin og ég sá bara undan mér leikvöllinn. Horfði niður í sandkassann. Ég man að það seinasta sem ég hugsaði var af hverju ég hefði aldrei leikið mér í þessum sandkassa áður. Síðan varð allt svart.
, og samt ekki.