Ég átti að byrja á túr fyrir mánuði. Af hverju var ég ekki ennþá byrjuð á túr? Ég fór að finna fyrir miklum kvíða og ótta. Ég stóð fyrir framan spegilinn og þreifaði á maganum mínum. Gæti verið að ég sé ólétt? Neiiii, það getur ekki verið en hvernig gat ég verið viss? Ég hafði tekið óléttupróf stuttu eftir að ég svaf hjá þessum strák en svona próf geta stundum klikkað.

Ég fór til vinkonu minnar og ákvað að segja henni leyndarmálið um mig og þennan vin minn. Ég hafði lagt mikið á mig til að halda þessu leyndu en ég bara varð að segja þessarri einni vinkonu minni sannleikann. Ég treysti henni alveg. Hún myndi ekki kjafta frá. Ef þetta myndi fréttast væri ég í vondum málum.

Ég sagði henni allt af létta og þegar hún komst að því að ég hefði tekið svona 300 kalla óléttupróf sagði hún við mig að það væri aldrei hægt að treysta svoleiðis og það virki næstum aldrei. Svo fórum við að tala saman eins og ég eigi von á barni. Vinkona mín var alveg föst á því að ég ætti að eiga það en mér fannst það bara vera algjör vitleysa. Ég var nýorðin sautján ára og langaði alls ekki til að rústa lífi mínu með því að eignast lítið barn. Það kom ekki til greina. En vinkona mín var alveg föst á sínu um að ég myndi síðar sjá alveg geðveikt eftir því að hafa farið í fóstureyðingu og hún sagði líka að ef ég myndi fara í fóstureyðingu væru 50% líkur á því að ég yrði ófrjó og gæti ekki eignast börn seinna á ævinni þegar mér langaði til þess. Ég veit ekki hvort þetta var satt en ég var tilbúin að taka þessa áhættu en þar sem ég var ekki viss hvort ég væri ólétt eða ekki ákvað ég að fara til kynsjúkdómalæknis láta tékka á því…………..

….og ég gerði það. ÉG VAR ÓLÉTT!!! Ég pantaði fóstureyðingu og fóstureyðingin sjálf var ekkert voða skemmtileg lífsreynsla skal ég segja ykkur.

Í dag velti ég því fyrir mér hvernig það hefði orðið ef ég hefði átt þetta barn. Ég ætti þá lítið kríli núna. Það myndi koma hlaupandi til mín og kalla “mamma”. Ég hefði getað fylgst með barninu vaxa úr grasi. Ég myndi klæða litla barnið mitt og leiða það út á róló. Var það rétt ákvörðun hjá mér að hafa farið í fóstureyðingu?