Einu sinni var stelpa sem hét Signý. Hún var ung og vann á bæ á Vesturlandi. Hún var ólík öllum öðrum stelpum á hennar aldri, hún var ekki hjátrúarfull, trúði ekki á galdra, álfa eða huldufólk. Aðallega var það vegna þess að þegar hún var lítil hafði amma hennar alltaf verið að segja henni sögur af göldrum. En þar sem amma hennar var mjög gömul og bullaði oft um ekkert, þá hélt Signý alltaf að amma hennar væri smá sturluð og hlustað því lítið á hana.

En eitt sumarið breyttist allt hjá Signýju.
Hún hafði átt erfiðan dag og fengið lítinn mat, sem varð til þess að hún átti erfitt með svefn.
Loks gafst hún upp og læddist fram til að komast út og fá sér ferskt loft.
Úti var þoka og Signý horfði í kringum sig og sá mann nokkrum metrum frá sér. Hann virtist drungalegur svona í þokunni en þegar hann kom nær var hann bjartur og blíðlegur. Hún heilsaði honum og þau fóru að tala saman. Eftir smá stund spurði maðurinn hana hvort hún tryði á galdra. Hún neitaði og maðurinn varð glaðlegur í framan. Hann bað hana um að gera sér stóran greiða. Fara og ríða beint í austur þangað til hún komi að auðum bæ. Þar inni eigi hún að finna sjúkan mann liggjandi á bekk. Á hún að veita manninum koss á kinn. Signý hugsaði sig um en ákvað svo að hjálpa manninum. Maðurinn gladdist, kvaddi og hvarf inn í þokuna.

Daginn eftir hélt hún af stað til að leita að bænum. Eftir nokkra daga kom hún loks að auðum bæ. Hann var draugalegur en Signý ákvað að halda áfram. Þegar inn var komið sá hún mann liggjandi á bekk. Maðurinn virtist illa á sig kominn en það kom gleðisvipur á hann þegar hann kom auga á Signýju. Hún gekk að honum og veitti honum koss á kinn. Hann reis upp og þakkaði Signýju fyrir og ætlaði aldrei að hætta fyrr en Signý spurði hvernig hann gat orðið svo fljótt hress. Hann útskýrði fyrir henni að hann væri álfur sem veikst hefði af hræðilegri veiki. Hann varð sjáanlegur mönnum og varð að fela sig. Eina lækningin við svona veiki var koss á kinnina frá mannstúlku sem trúði ekki á galdra.
Svona gekk sagan áfram og maðurinn vildi ólmur halda áfram en Signý stoppaði hann. Hún var agndofa því henni gekk illa að trúa. Maðurinn sá svipinn á henni og sagðist alveg skilja ef hún vildi ekkert trúa þessu. Hann gaf henni lítinn pakka að lokum. Hann sagði henni að þetta væru launin hennar en hún mætti alls ekki opna pakkann fyrr en á miðnætti. Þá muni henni ganga vel í lífinu en annars muni eitthvað illt gerast. Svo kvaddi hann með þökkum og hvarf.
Signý sat alein í myrku herberginu og vissi ekki hvað hún átti að halda. Hún starði bara á pakkann og á staðinn þar sem maðurinn hafði verið tl skiptis. Loks tók hún sig á og ætlaði að ganga út. Tók hún þá eftir því að það var byrjað að rökkva og ákvað að gista á bænum yfir nóttina.

En hún átti erfitt með að sofna vegna hugsana sem þeyttust í gegnum höfuðið. Hún starði annað slagið á pakkann og forvitnin var alveg að fara með hana. Hún horfði upp til himins og sá mánann. Hún vissi að það var ekki alveg komið miðnætti en hugsaði, hvað gæti eiginlega gerst sem gæti verið svona hættulegt. Hún teygði sig í pakkann, og inni í honum var gullfallegur silfurhringur. Hún setti hann upp og sofnaði með bros á vör. Um nóttina dreymdi hana að maðurinn kom til hennar og skammaði hana. Hann sagði að refsing hennar verði sú að hún muni verða svo óheppin að fólk haldi að hún sé í álögum.

Daginn eftir vaknaði hún og hélt af stað heim á leið. En leiðin tók langan tíma vegna óhappa sem hún lenti í eða vegna veðurs.
En þegar hún loks kom heim byrjaði fólk að taka eftir því hvað hún var óheppin, gamalt fólk hélt því fram að hún væri í álögum eða haldin illum anda. Fólk fór smátt og smátt að forðast hana. Þegar hún veitti því eftirtekt kom hún með þvílíku sögurnar af hverju hún væri svona óheppin, og ekki vildi hún játa að galdrar væru til. Þá fór fólk að segja hana sturlaða því sagan hjá henni var aldrei eins.
Signý lagði þá af stað til að reyna að finna manninn sem hún hafði hjálpað og kom aldrei aftur.


Höfundur: ImCharmed
“One day when your whole life flashes before your eyes, make sure it's worth watching … before it's too late.” - Anonymous