Þetta er svo stutt að ég vildi ekki senda þetta inn sem grein, jæja njótið :)


Hún leit á hann með sorgmæddum augum. Ætlaði hann ekkert að fara að gera í þessu? Hann harðneitaði alltaf þegar að hún bað hann um það, þannig að hún var hætt því, ákvað að láta hann sjá vandann sjálfur. En hann sá hann ekki. Vandamálið varð bara stærra og stærra með hverjum deginum og hann gerði ekkert í því.

Hann var að verða pirraður á þessu eilífa tuði. Hann vissi alveg af vandamálinu, en hann bara gat ekkert gert. Þetta bara…gerist. Hann andvarpaði. Hann vissi vel að hann þurfti að gera eitthvað í þessu, en fékk sig bara ekki til þess.
Hann sá að hún var farin að örvænta og andvarpaði aftur.

Svo gekk hún rólega til hans, tók í höndina á honum og sagðist vel skilja ef að hann fengi sig ekki til þess að laga þetta, en hann bara þyrfti að gera það sama hvað. Hún bauðst meira að segja til að hjálpa honum, en hann neitaði. Hann þurfti að gera þetta einn, þetta var jú hans vandamál. Hún mótmælti því ekki, en sagði að hann þyrfti að fara að drífa í þessu.
Svo sneri hún sér aftur að eldavélinni.

Hann hengslaðist á lappir og dragnaðist fram á gang. Hann gat jú alveg byrjað…hann nennti ekki að lifa við þetta eilífa tuð. Nei. Hann ætlaði ekki að gera henni það til geðs. Hann hlammaði sér í sófann og kveikti á sjónvarpinu.

Útidyrahurðinni var skellt og það heyrðist fótatak á ganginum. Í sömu andrá heyrðist kallað “MATUR!” úr eldhúsinu.
Hann stökk á fætur, enda glorsoltinn. Hann settist niður skælbrosandi því að það var uppáhaldið hans í matinn. Svo fölnaði brosið jafnhratt og það kom þegar hann sá þennan stóra og sterklega mann setjast við borðið. Hann var í lögreglufötum.
Ónei. Hann virtist vonsvikinn og reiður. Svo tók hann til máls “Palli minn, þetta er ekki að ganga! Þú verður að fara að gera eitthvað í þessu!”

Palli hengdi haus, hann komst ekki upp með að slugsa svona með þetta lengur.
Aftur tók sterkelgi maðurinn til máls “Við mamma þín ólum þig upp með ást og höfum gefið þér allt sem að þú vilt! Og þetta fáum við í staðinn frá þér, þetta gengur ekki lengur!”

Palli skammaðist sín niður í tær. Eftir nokkra stund tók pabbi hans enn einu sinni til máls “Farðu nú að hlýða henni mömmu þinni drengur, og farðu út með ruslið!”