Langar til að heyra hvernig þessi inngangur virkar á fólk. Þetta er bók sem ég er að klára um 5 mánaða ferð mína til Suður Ameríku. Kannski erfitt að láta hann standa svona einan og sér. Hafa margir áhuga á ferðasögum?

Inngangur: Leiðin til Suður Ameríku

Ég var staddur í versluninni Fjarðarkaupum þegar ég hitti á einn kunningjann. Hann spurði mig án þess að vita hvað ég væri að bauka, “Og hvert ertu að fara núna?”. Það gera orðið félagarnir, ganga út frá því vísu að ég sé á sífelldu flakki, sé bara hér í stuttu stoppi og svo fari ég aftur út í heim. “Ég er að fara til Suður Ameríku” svaraði ég sannsögull, “14. mars”. Það kom glott á hann, sá að ég var enn felldur við sömu fjölina. Það þótti mér að þarna stæði ég í versluninni og játaði á mig alkóhólisma. Játaði á mig ferðafíknina. Því bætti ég við “Þetta fer nú að verða komið gott. Ætli þetta sé ekki síðasta ferðin í bili”. Hann fór að skellihlæja “Þetta sagðirðu líka síðast!”. Og svo þegar hann gat hætt sínum hrossahlátri bætti hann við til ítrekunar “Þetta segirðu alltaf!”. Ég gat ekki spyrnt á móti, forfallinn ferðalangur og við það situr. Hef legið á veginum í rúm tvö ár og lifað flökkulífi svo þetta fer allt að verða ein samfelld rússibanaferð, líf mitt eitt samfellt ferðalag.


Undanfari ferðarinnar til Suður Ameríku er flakk mitt um Norður Ameríku. Þar hafði ég ferðast á puttanum þvert yfir Kanada að hausti til, næst stærsta lands í heimi, og lent í ótal ævintýrum. Meðal annars heimsótt Íslendingabyggðir í kringum Gimli þar sem margir tala enn einhver orð í forn norrænskunni og 100.000 afkomendur okkar íslendinga búa. Er ég hafði farið frá Atlantshafi til Kyrrahafs, húkkað far með yfir sjötíu bílum og hitt fyrir fullt af áhugaverðu fólki, hélt ég niður vesturströnd Bandaríkjanna og inn í Mexíkó. Þó ég hafi í þessari ferð minni heimsótt indíánabyggðir uppi við landamæri Alaska var kúlturinn löngu horfinn, vestræn gildi búin að lærast þeim og blóðið það útþynnt að ég gat ekki betur séð en að þeir væru hvítir margir hverjir á hörund. Það vissi ég þá að ég yrði að heimsækja Suður Ameríku, meðan enn viðhaldast fornar venjur og hefðir í álfunni og fólk lifir á margan hátt ekki ósvipað forfeðrum sínum Inkunum. Í álfunni er líka ógrynni af áhugaverðustu rústum, náttúruundrum og einhverjum litríkustu kúlturum þessa heims. Macchu picchu, Amazon, Andezfjöllin, Iquazu fossarnir og eldheitur suðrænn Salsa. Það er þannig sem ég ákvað að halda út í Víking, með 60 lítra bakpoka og íslenskt Brennivín. Ég hafði ekkert ákveðið hvert ég vildi nákvæmlega fara og hvað skyldi gera, engar áætlanir né ferðaplön lágu fyrir, bara óljósar hugmyndir. Hugdettur öllu heldur. Ég vildi spila þetta dag frá degi líkt og sannur flakkari. Þá þegar ég rís úr rekkju á hverjum stað, þá er best að láta lappirnar leiða sig að ákvörðun. “Ég mun vita hvað gera skal þegar fuglinn er lentur”.


Ég er ekki eini sauðurinn á veginum. Það fer um heiminn heil kynslóð af bakpokaferðalöngum, hún hefur risið upp í kjölfar brautryðjenda ævintýramennskunnar á borð við Jack Kerouc, Erneste “Che” Guivara og fleiri er ég þekki ekki með nafni. Með bakpoka og takmarkaða aura, vegabréf og ævintýraþrá hefur orðið til ný tegund af massa túrisma. Það hafa risið upp hostel, samkuntuhús flakkara, þar sem fólk deilir rými, eldhúsaðstöðu og sögum af förnum vegi. Þar ræðir fólk ferðirnar, áttirnar og ævintýrin. Það erum við er þrömmum um heiminn í hópi tugþúsunda á ári hverju, jafnvel milljóna ef allt er með talið, í viðleitni til að sjá og heyra í ólíkum kúltur, ganga upp sömu hæðirnar og mannkynssagan hefur orðið til, sömu staðina er ólguðu með fornu lífi og skoða þar glæstar byggingar og rústir sem enn standa, eða heyra af þeim sögur er horfnar eru af ágangi tímans, okkur fýsir í að fá upplifað undur þessa heims. Áfangastaðirnir verða eins og heiðursmerki, nýjar upplifanir eins og gylltir í hnappagatið, orður sem ég ver stoltur. Því þó margir fari sömu vegina, eru það fáir er stunda ævintýramennskuna, innan um hafsjó óreyndra sjóara er þvælast bara með slóðanum og víkja aldrei af leið fara harðnaðir flakkarar, lifa og hrærast á veginum og gjörþekkja lifiháttinn, leita uppi óvanann, furðuverk og afskekkt undur.


Í nútímanum er þessi ferðamátinn mögulegur, auðveldur, svo allir geta tekið þátt. Það er hægt að ferðast hálfan hringinn um hnöttinn án tiltölulegra vandræða. Fara um lönd í fimm mánuði og eyða ekki miklu meiru en tveggja vikna Spánarferð myndi kosta. Þetta er lífsstíll, list að lifa á veginum, og ætli menn sér það af alvöru þurfa þeir járnaga.
Ekki nýt ég þess að fljúga og alls ekki að húka í rútum svo klukkutímum skipti, að ganga upp eftir fjalli másandi eða bíða á stoppistöð svo mér drepleiðist. Það er áfangastaðurinn er helgar meðalið, það eru grasið handan árinnar, gatan fyrir hornið, gullið í kistunni, það er þessi sífellda þörf að opna dyrnar og sjá þann heim er leynist á bakvið álfuna, landið, staðinn og mannfólkið.


Á ferð minni til Færeyja með norrænu árið 2002 hitti ég fyrir ævintýramanninn Raphael frá Sviss. Hann hafði verið “á veginum” í 12 ár. Hann var löngu búinn að missa rætur við heimaland sitt og hafði starfað undanfarið við bústörf á Íslandi. Þegar við sigldum saman yfir Atlantshafið var hann á leið “heim” til að vera viðstaddur brúðkaup æskuvinar síns. Eftir fáeina daga í Sviss var hann svo á leið í næsta ævintýr.
Fleiri slíka hef ég rekist á þó auðvitað marki þessir menn öfga ferðamennskunnar, þeir hafa löngum misst rætur við heimahagana og eru orðnir farandverkamenn á sífelldu flakki. Þeir vinna á milli ferðalaganna einungis til að safna nógu fé til að geta lagt í næstu ferð. Raphael starfaði yfirleitt við búyrkju, á meðan aðrir vinna á börum, gistiheimilum eða öðrum starfa er reynist auðvelt að sinna til skamms tíma. Það sem flestir ferðalangar eiga sammerkt er að þeir óska sér einskis meir en að snúa aftur til ævintýrisins eins fljótt og auðið er. Þó þeir fari af og til aftur til heimahaganna, til vinnu, skóla eða annarra skylduverka, blundar þráin í þeim, vex með tímanum þar til óbærilegt er að sitja á sér.


Raphael hafði farið ferð um Argentínu. Keypt sér hest og riðið um sveitir og lifað af landinu. Það kveikti í mér draumsýn um álfuna, frelsisins að vera einn með sjálfum sér og hrossi, fara hvert þangað sem hugurinn æskir og ríða inn á ósnerta staði lausa við túrisma. Það er án efa ein af kveikjum ferðar minnar til Suður Ameríku.


Ævintýrin framundan, þau velta að mestu á því fólki sem verður á vegi mínum. Ferðin atvikast þannig af algjörri tilviljun, en óbeislaður og villtur ferðamátinn er ég ástunda er líklegur til að leiða mig inn í einhver spennandi ævintýr og ógnvekjandi hremmingar.
Maður stjórnar illa framvindu ferðar, slíkt er bara fyrir taugaveiklað fólk sem fyrir vikið lendir aldrei í neinu, best er að hafa lausan tauminn á fáknum og þeytast áfram eftir engi ævintýranna, fara þar um sem slóðin liggur í stað þess að berja hrossið áfram upp grjót og eyðilendi við það að hamast við að komast yfir skylduverkin.
Svo má auðvitað taka upp á furðulegum hlutum, það er oft grundvöllur eftirminnilegra upplifana, að fara af slóðinni, taka eilitlar áhættur eða framkvæma það sem flestum þætti óhugsandi fáránleiki. En auðvitað er aðal málið að njóta ferðarinnar, sigra nýja staði og kynnast skemmtilegu fólki. Til hvers væri maður að þessu annars? Í leit að sjálfum sér? Að hlaupa undan veruleikanum? Eða kannski bara til þess að rasa út? Hver veit? Ég hef allavegana löngu gleymt því afhverju ég er enn á veginum. Þetta hefur meira þróast út í þrautseigju, líkt og mér finnist ég þurfa að sigra allan heiminn.
Út vil ek á ný og nú er bara að bíða átakanna. Húka hér heima í dösuðu kæruleysi þar til seglin eru upp dregin og skipin sigla suður.