Einn ég ligg og læt mig fljóta í róandi rökkrinu.

Kúri og móki; nú er máninn falinn og fegurð að ofan seytlar á tindrandi tjörn; á ljúfum bárum hennar eg læt mig líða, nú er ei lengi eftir svefninum að bíða.

En heyr! Nú er þögnin horfin og farin á braut; fyrir beljandi vindi’ í duftið hún laut.

Hófar frísandi nepjunnar á tindrandi tjörnina dynja.
Vatnið, það gárast,
og nú ég verst því að tárast, því ég varð þess áskynja, ég sver! Ég sá í það útundan mér. Eitthvað utan þessa heims, dýr úr óttans draumum,
mótað úr myrkri og hert í Múspells heimum,
ég sver!

Nú er það inni, nú er það hér;
„hvað vilt þú mér?“ spyr ég dýrið úr draumum mínum, þennan dauðadróttin úr draumum mínum;
„hvað vilt þú mér?“ spyr ég öðru sinni. Finn efldan móðinn í sálu minni og í þriðja sinn eftir svari inni, nú er tími til að þessu linni:

„Hvað vilt þú mér og hvað viltu þú hér, myrkravera.
Illa innrætt mér þykir þú vera.

Ertu‘ að hæðast að mér, hlægja að mér?

Brýst hér inn undir þiljum nætur, og nepjan þín traðkar á tindrandi tjörn (eg bíð þess líklega aldrei bætur!), en á ljúfum bárum hennar eg lét mig líða, því eftir svefninum var ekki lengi að bíða.

Tala skaltu hér og nú!“


Þá hún svarar, skepnan talar!

„Eddi minn. Ertu nokkuð búinn að pissa og bursta tennurnar?“

Ógn og morð, hvílík skelfingar orð! Lengra undir sæng eg skríð. Ef til vill fer hún?
Hún, móðir mín fríð…

Nei, það var of gott til að vona:
„Svonasvona.
Á lappir ljúfurinn.“

Muldra
„ókei“ og svo inn á bað. Þreyttur og mæddur,
en ég þarf að klár’ etta af…