Ég hef verið að lesa yfir smásögurnar undanfarið og þær virðast margar tengast ástinni sem yfirgefur eða dauða einhvers, að vísu er þetta í fínu lagi en hvernig það er gert er vandasamt verk. Inn á milli línanna þá er eins og höfundur stari á mann og segi “jæja ætlar þú ekki að fara að gráta.” Sem sagt hann hefur skrifað sögu sem á að láta lesendur gráta og það verður tilgangur sögunnar, þetta er ekkert annað en predikun. Áhrifameira væri að höfundur kæmi lúmskt með sorglegt atriði, svona óvart. - þá verður hann svo hissa. Það er ekki hægt að segja fólki að gráta nákvæmlega á þessu augnabliki, í bestu bókmennunum er hægt að ræða við fólk um það hvenær það byrjaði að gráta - ja, ég byrjaði á línu 70 - ég grét í lokin á línu 260. Ég veit einnig um dæmi að persóna fór að gráta daginn eftir að hún var búinn að lesa söguna, þá var hún bara stödd út í bæ. Leyfum fólki að ráða því hvenær tilfinningarnar koma á yfirborðið, ekki haga því eins og á rásmarki í langhlaupi 1 - 2 - og nú.