Það er kalt í kvöld. Of kalt. Ég er þreyttur. Of þreyttur. Ég hef unnið lengi að Verkefninu. Of lengi. Kannski. En því lýkur bráðum. Þá verður allt í lagi. Ég horfi á fólkið í strætó og hugsa um hvernig Verkefnið á eftir að hafa áhrif á það. Stundum efast ég. Ég efast um að ég ætti að vera að gera þetta. En einhver verður að gera þetta. Það er ekki hægt að leyfa Þeim að koma svona fram við okkur. Þetta verður slæmt fyrst. Já. Þetta verður ljótt. Forljótt. Jafnvel blóðugt. En eftir það verður allt svo miklu betra. Það verður vont en það batnar. Þá verðum við frjáls. Þá getum við keyrt um með blæjurnar niðri með Lenny Kravitz í botni og kelað í almenningsgörðunum. Við getum svarað í símann án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að Þær séu að hlusta. En ég er merktur. Þær fylgjast með mér. Hvert sem ég fer finnst mér sem Þær elti mig. Í bíó. Í Kringlunni. Jafnvel þegar ég er heima með henni. Þá finnst mér sem það sé fylgst með mér. Ég gruna alla. Þess vegna er Verkefnið nauðsynlegt. Það líður öllum svona. Okkur finnst sem við séum hvergi örugg. Efi. Hræðsla. Reiði. Hatur. Við finnum öll fyrir því. Við getum ekki einu sinni haldið fundi í Virkinu lengur. Það er fylgst svo vel með okkur. Virkið var staður þar sem við gátum verið örugg. Þar sem okkur leið vel. Þangað til Þær fóru að gruna okkur. Þá urðum við að vera varari um okkur. Við hættum að hittast öll saman. Núna hittumst við bara eitt og eitt. Enginn hefur allar upplýsingarnar heldur hefur hver og einn bara ákveðið hlutverk í Verkefninu. Og bráðum verður af því. Ég veit að það á eftir að ganga.
No guts, no glory