Þessa smásögu skrifaði ég fyrir skólann þegar ég var tíu ára. Þá var ég í Laugarnesskóla (og er reyndar enn) og þar í skólanum eru glerskápar með uppstoppuðum dýrum.



Játning

Fyrir u.þ.b. fjörtíu árum var ég nemandi í Laugarnesskóla.
Eins og algengt er með stráka var ég uppátækjasamur og hafði gaman af brellum og smágríni. Oftast voru hrekkirnir aðeins saklausar smábrellur en í eitt skiptið fór ég langt yfir strikið og hef því haft samviskubit alla mína ævi. Sálfræðingur minn hefur loksins sannfært mig um að best sé fyrir mig að hreinsa samvisku mína og ætla ég því, í þessu bréfi, að játa gjörðir mínar.

Einn sólríkan veðurdag var því svo háttað að börnin í 6. K áttu að fara í gönguferð um Laugardalinn. Áður en við héldum út á skólalóð tók ég eftir því, mér til mikilla vonbrigða, að það var egg í nestisboxinu mínu. Þá fékk ég eina af mínu furðulegu hugdettum: Án þess að nokkur tæki eftir opnaði ég einn af glerskápunum og lagði eggið við fætur gæsarinnar sem þar stóð.
Daginn eftir var kennarinn minn í miklu uppnámi og sagði okkur krökkunum að dularfullir hlutir væru að gerast.
Nokkru síðar freistaðist ég til þess að endurtaka leikinn og aftur varð uppi fótur og fit. Ekki leið á löngu þar til þriðja eggið lá við fætur gæsarinnar. Upp frá þessu komst ekkert annað að hjá kennaranum og fór öll orka hans í að ráða þetta dularfulla eggjamál. Næsta haust mætti hann ekki til starfa, enda vissu flestir að hann hafði helgað líf sitt gæsunum og sat flestum stundum niðri á Tjörn og horfði á fuglana. Sagt var að hann væri fámáll og segði lítið annað en: “Þau voru harðsoðin”.

Í síðustu viku hleypti ég í mig kjarki og heimsótti fórnarlamb mitt á Klepp. Hann þekkti mig auðvitað ekki, og ég hef sterklega á tilfinningunni að hann hafi ekkert skilið af því sem ég var að segja. En mér brá óneitanlega þegar hann leit fast á mig og sagði rólega: “Þú ert með gæsahúð.”

kv. Jói