„Vissirðu það gæskur, það þegar ég var ungur var ekki siglt til Íslands að nokkru marki,“ sagði ég við unga herramanninn sem sat gengt mér.
Hann var klæddur hnéháum hermannastígvélum og var nauðarakaður. Þvert yfir skallan var hann með húðflúrað merki Forstjórans. Jafnvel þessi fráhrindandi múddering gat samt ekki hulið hvað hann var aðlaðandi og vinalegur.
„Nújæja,“ hváir hann, „það hefur verið erfitt að komast á meginlandið…“
„Nei, þú misskilur, sjáðu til; fólk flaug,“ tjáði ég honum.
Strákurinn brosti.
„Uss, ég þyrði ekki fyrir mitt litla líf að stíga fæti upp í flugvél,“ sagði hann.
„Þá voru líka aðrir tímar. Allt aðrir tímar. Og nú eru þeir farnir.“ Ég þagnaði.
„Þú ert einmitt eins og ég ímynda mér fólk frá aldamótunum,“ sagði hann mér, „á góðan hátt meina ég…“
Ég var hreint ekki móðgaður.
„Ég tilheyri veröld sem var.“ Þetta helvítis hrísgrjónavínsull fyllir mann af engu öðru en bulli.
Strákurinn lítur alvarlega á mig og hlær svo. Það var eitthvað viðkunnalegt við hann. Það er ekki svo oft sem maður hittir á fólk sem hægt er að tala við nú til dags. Kannski var það það hann talaði frekar skýra og hreina íslensku. Öðru máli gegndi um stelputóuna sem hékk utan í honum og gat varla hikstað upp úr sér skiljanlegri setningu á sinni bjöguðu skandinavensku, eins og vinur minn kallaði það. Stelpan, sem var klædd látlausum kirtli, gekk þó að minnsta kosti í einhverju að ofan. Algengast var að stelpur úr hennar stétt gengu um með bera bringuna. Öðru nær þótti mér um það þegar þú fólk umskar á sér munnvikinn eins og hún og nær allar táningsstelpur gerðu núorðið. Þvílík afmyndun á andlitinu, að kljúfa upp munnvikin báðum megin framundir kinnbein og uppað eyrum, svo andlitið varð eins og eitt gímald. Afar óviðfeldið.
Strákurinn virkaði eðlilegur og félagslyndur. Skyldi hann vera á leiðinni til Reykjavíkur að berjast?
Dallurinn hristist til í briminu.
„Afsakaðu mig,“ afsakaði ég mig, „en ég verð að fara.“
„Það hefur verið ánægjulegt að spjalla við þig.“
Strákurinn sagði ekki neitt en stóð upp og greip um höndina á mér og heilsaði. Þó mér þætti óvenjulegt að láta ókunnuga snerta mig og að kærastan hans virtist fara hjá sér yfir framhleypni hans þá lét ég það mér gott lynda.
Ég vaggaði inn að káetu. Skyndilega fer rafmagnið eitt augnablik af skipinu. Ég stansa og það er dauðaþögn á ganginum. Ég þreifa í augntóftunum. Einu sinni hafði ég bæði augun. En það voru aðrir tímar.
MS. Engið sigldi sinn sjó.<br><br>
Það er ekkert stolið við þessa <b>undirskrift</